<$BlogRSDURL$>
Dvel ég í draumahöll og dagana lofa
mánudagur, desember 29, 2003
 
Maður á ekki að velja sér tannbursta á myrku baðherbergi.

(Speki næturinnar)
 
 
Ég þoli ekki þegar að maður fær svona hryllingsmyndahroll í sig. Til að mynda þegar maður er að opna útidyrahurðina um nótt og fer skyndilega að flýta sér og þegar að maður lokar hurðinni sér maður fyrir sér hönd sem teygir sig inn, klippt úr hryllingsmynd. Það er að öllu jöfnu verra eftir að horft hefur verið á slíka mynd. Maður verður eins og krakki og þarf að kíkja undir rúmið og inn í skápana.
Þetta hefur alltaf verið svoleiðis síðan ég var krakki og var alveg alein á efri hæðinni. Þannig að ef ég þurfti að sækja eitthvað upp á loft þá hljóp ég alltaf niður eins og fjandinn væri á hælunum á mér.

Jólin voru frábær! Hef ekki skemmt mér eins vel yfir að opna pakka í háa herrans tíð. Það var SVO gaman, fékk líka alveg brill jólagjafir sko! Sérstaklega gaman að plötuspilaranum, sokkunum og frábæru húfunni!
Fékk Mary Poppins-plötu og var ansi undrandi, þar sem að þegar ég hafði spurt fjölskylduna um ástand plötuspilara heimilisins var svarið að magnarinn og hátalararnir væru bilaðir (eftir mikla skemmdavargatíð Matta bróðurs í kringum tveggja ára tímabilið, stakk t.d. saltstöngum inn í vídjótækið og sprengdi hátalarana, hækkaði alltaf í botn þegar slökkt var á þeim og grandalaus manneskjan sem ætlaði að kveikja fékk ansi illt í eyrun) en foreldrar mínir voru búnir að redda því. Síðan ýmislegt fleira frábært frá þeim og öðrum, það var sooo gaman. Af hverju eru jólin ekki oftar? Einu sinni á ári, er það ekki einhver nánasaháttur? Er það orð til? Er ég orðin geðbiluð? (og hér er fólk vinsamlegast beðið um að svara ekki, ég veit alveg hvað þið ætlið að segja!)

Ég held að við það að horfa í tíu tíma á Hringadróttinssögu hafi heili minn orðið fyrir alvarlegum skemmdum, það er ekki vika síðan en samt lét ég plata mig út í að horfa á fyrstu og aðra myndina aftur í dag, númer tvö í lengdri útgáfu. Enn spyr ég er ég gengin af göflunum? (og þið eigið EKKI að svara núna heldur!)

En er farin að klára Artemis Fowl sem að ég rændi frá áðurnefndum bróður (sem bætt hefur við sig tíu árum frá skemmdavargatíð og er mikið ljúfmenni nú, eða nokkurn veginn....)

Síðan eru það bara áramótin! Úúúúúú flugeldar!!!! Sit með æðisglampa í augum áður en ég brest í ógnvekjandi hlátur, mwúhahahahahahahahahahahhahahahahahahahaha!
 
fimmtudagur, desember 25, 2003
 
Jólin eru frábær!
 
mánudagur, desember 22, 2003
 
Síðastliðna viku er ég alveg bara búin að vera að vinna og gaman.
Byrjaði að rífa niður herbergi offiserins, einhvur breskur gaur úr seinni heimstyrjöldinni. Urðum fyrir miklum vonbrigðum með að finna ekkert undir hinum skuggalega fúnu gólfjölum. Bjuggumst hálft í hvoru við að finna mannabein eða annað spennandi. Gátum þó lesið dagblað á þýsku frá 1952, þar stóð í einni sígarettuauglýsingunni: Það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari! Ég var síðan að rífa niður veggi og alveg klikk með kúbein. Var að hugsa um að hætta bara í skóla og fara að vinna við niðurrif á húsum. Ákaflega streitulosandi starf. Fór á MH-versló ballið, og svo í alveg allar tvær útskriftarveislurnar. Til hamingju Unnur og Líney!
Síðan skrapp ég frá í rétt svo rúma tíu tíma í gær til að að kíkja aðeins á hringadróttinssöguna. Fyrir framan mig var kona með klikkaðan topp þannig að ég þurfti að standa á tám til að sjá yfir hann. Það vildu þó svo til að var hún reykingakona þannig að þegar hún þurfti að reykja í miðjum myndunum gat ég sigið niður í sætið og horft. Síðan þegar að við komum út úr bíósalnum og út þá er bara alveg brjálað veður! Snjór og læti.
Held að ég verði bara að fara út á snjóþotu á eftir, sem er mjög svo heilsusamlegt athæfi, og ég er ekkert of stór!
En er í vinnunnni og bara farin.............
 
mánudagur, desember 15, 2003
 
Einu sinni var.....
...andarungi

Hann var grænn. Vegna annarlegs hörundslitar átti hann erfitt með að falla inn í hópinn. Þar til ein græn lítil geimvera lenti í andatjörninni. Að sjálfsögðu þótti hún afburðasvöl. Allar endurnar fóru í litun og strípur til að verða grænar. Þá varð græni andarunginn mjög svo vinsæll.

Þessi litla dæmisaga kennir okkur það að ef að þú passar ekki inn í hópinn litaðu hárið á þér grænt og bíddu eftir geimverunum.

(Engin ábyrgð er tekin á þessari sögu. Ef einhver litar á sér hárið grænt og verður ekki vinsæll í kjölfarið er það honum að kenna, vitlaus litur eða eitthvað. Ef rétt er gert er þetta ráð óbrigðult)
 
laugardagur, desember 13, 2003
 
Vá, vá, vá. Það er svo kalt úti! Þurfti ég þó bara að ganga frá bílnum og inn en líður eins og ég hafi verið að ganga yfir norðurpólinn þveran og endilangan!

Í morgun sá ég að nokkuð skagaði upp úr skónum mínum sem fundið hafði leið sína í gluggakistuna mína. Reyndar sá ég þetta í nótt sem leið því ég fór að sofa seinna en jólasveinninn. Jújú, í skónum mínum var tveggja turna tal í bættri útgáfu. Reyndar hafði ég vitað af þessum ráðagjörðum sveinka því hann (*hóst* foreldrar mínir) keypti diskinn í gær og ákvað að stinga honum í skó bróður míns, komst að því að það væri nú ekki fallega gert að annar bræðra minna fengi rándýran dvd-disk en hinn smotterí. Þannig af greiðvikni og góðvild minni bauð ég foreldrum mínum að gefa mér hann bara.
Þannig í kvöld er mikið fjölskyldukvöld, þar sem við troðum okkur öll í einn sófa (þessir stólar eru fantalega óþægilegir þó þeir séu flottir) og horfum á myndina. Þetta verður alveg rosalega sætt.

Næstu helgi virðist ég hafa lofað mér í einhver ósköp. Þá ætla ég á maraþon sýningu á einmitt Hringadróttinssögu. Það var ekki fyrr en síðar að ég uppgötvaði að það er ekkert smá. Þetta verða svoooo margir klukkutímar sem fara í þetta, að ég sem hef annars mikið sjónvarpsþolinmæði, er jafnvel farin að efast um að ég haldi það út. En þó ætti það að ganga, maður bíður alla vega mjög spenntur eftir þriðju myndinni þannig að ekki fer maður eitt né neitt.

Tónleikar gærdagsins heppnuðust ekki mjög illa. Við spiluðum okkar verk og já, vorum ekki upp á okkar besta en alls ekki okkur versta (gavöð hvað það er slæmt!).

Jæja, þarf að klára að læra píanólagið mitt utanbókar fyrir tónleikana. Það vildi nefnilega þannig til að ég týndi nótunum (öhömmm, þær lentu inni í herberginu mínu og áttu ekki afturkvæmt) og kunni næstum allt lagið. Vantaði bara síðustu varíasjónina. Þannig að ég hef bara verið að æfa það sem ég kunni. Er nú búin að endurheimta nóturnar og þarf að fara að klára að læra þetta þar sem tónfundurinn er á miðvikudaginn. Ójá-ójá. Þannig að ég er farin! Hlaupin. Rokin. Stokkin. Yfirgef svæðið. Tekin á rás. Þotin. Haldin á brott. Farin leiðar minnar. Já, bara farin. Löööööngu farin.
 
föstudagur, desember 12, 2003
 
Vegna þess að ég er í fríi (gleymdi satt best að segja alltaf að hringja niður í vinnu til að tilkynna prófalok) þá virðist ég hafa tíma sem að ég þarf ekkert nauðsynlega að gera. Margt sem að gæti verið að gera en ekkert sem að ég verð. Þannig að oftar sem ekki finn ég mig staðsetta við tölvuna. Það er nú einhverjum takmörkum háð hve mikið maður getur gert í einni tölvu fyrst ekki hangi ég í tölvuleikjum þannig að hér er ég bara.

Hef ákveðið að æfa mig í þeirri hugarleikfimi að snúa orðum við, sem sagt skrifa aftur á bak. Tel ég að þetta geti verið holl og góð þjálfun fyrir heilasellurnar svokölluðu:

Naðóg gad, gé itieh atsá núrðieh tebasíle go re nájtín ará. Gneg gé í nnaþ alóks mes tsinefn nnilóksatnnem ðiv ðílharmah, raþ re gé á utsuðístsæn nnö. Aðe rav ða akújl inneh. Ða appiv ugelujnev ilám á uksíkabárutfa re isna ttifre. Ðaþ ruket á nnim altil alieh.

En ef að ég skrifa alltaf stafinn sem er hliðinn á hinum rétta staf (eftir hinu íslenska stafrófi):

Hpeáo ðáh, fh iéíuí butá (haha, nafnið mitt er butá) iéíesvo émjtác(d?)u

Ok, nenni ekki meiru, er geðveik en ekki svo!
 
 
Er ekki bara smá tónleikastress farið að hrjá mína. Gavöð. Var að koma heim af æfingu þar sem allt hefði tæplega getað gengið verr. Það var nú svolítið skondið. Ég á alveg gríðarlega auðvelt með að roðna, þarf ekki að gera mikið meira en að yrða á mig. Alla vega vorum við búnar að spila þetta soldið yfir og það hafði nú ekki gengið sem allra best. Þá ákveðum við að þykjast svona vera á tónleikum, þannig að ein í kvartettnum segir í gríni að við eigun að stressa okkur upp og ég eigi að taka upp minn einkennislit. Ekki var það mikið mál, sagði bara okei, og gat bara roðnað á staðnum eftir skipun! Samhliða roðninu þá fór tónleikamagasnúningurinn af stað og ég sem hafði að öllu jöfnu ekki verið að ruglast gat ekki haldið svo mikið sem takti. Sem er slæmt, mjög slæmt því að ég er með laglínuna í báðum lögum og ef hún fer úrskeiðis þá er eftir því tekið já.
Annars höfum við nokkuð góða reynslu af þessu verki á tónleikum. Ekki vegna þess að það hafi gengið vel. Nei, það gekk í raun illa, en öllum sem hlustuðu fannst þetta frábært! Þakka bara guði fyrir nútímaverkin! Það skipti engu máli hve miklu við klúðruðum, enginn tók eftir neinu! Sem er smá huggun. Er að spila á svokallað es-klarinett. Það getur spilað á þannig tónsviði að það líkist frekar svona hundaflautu sem bara hundar heyra í vegna hárrar tíðni! Getur það sko. Ég henti samt smá kafla niður um áttund, vegna umhyggju minnar fyrir áheyrendum svo að þeir færu ekki burt með heyrnarskemmdir. Er samt alveg með svoldið á mjög skrækrómu sviði, já já hlakka svooooo til!

Beint eftir tónleika mun ég síðan skunda í afmælið hennar Kristínar.

Nú hef ég dregið upp saumadótið. Það gerist bara einu sinni á ári þegar ég tek mig til og sauma jólakort handa ömmunum. Saumaði samt aldrei meira en í verkfallinu. The verkfall. Þá kláraði ég saumverkefni tíundabekkjarins (risastórt bútasaumsteppi, allar myndir handsaumaðar og svona handstungið líka, ÁÁ puttarnir mínir sko!) og saumaði líka massa jólakort. Held að það verði stærsta saumaverkefni mitt á ævinni. Læt bara dugu að sauma svona lítil jólakort núna.

Á mánudaginn mun ég fara að vinna. Sem er mjög gott. Alltaf gaman að því.

Jæja, er óttalega andlaus í dag.

Ekkert rugl í mér núna. Óvenju venjuleg færsla.

Hei, já, allt stefnir í þá áttina að ég kannski lagi síðuna og hendi inn svosum gestabók og læri að setja inn hlekki og jafnvel röfl-kerfi! Þ.e. ef mér tekst að fá hina mjög svo tölvu-væddu vinkonu Vilborgu til að hjálpa mér! Koma svo Vilborg! Til hvers að eiga vini á tölvufræðibraut ég bara spyr? Nehhhjj, þúrt frábær sko!

Já, er farin að setjast út í horn að hafa áhyggjur af einhverju.
 
fimmtudagur, desember 11, 2003
 
Ponsusmásaga

Tveir strákar, Aron og Hallur, sitja og horfa á sjónvarpið

H: Já, hann skorar!
A: Eigum sko þokkalega eftir að vinna þetta
H:ummhmmm
(dyrabjallan hringir)
A: nennirðu til dyra, þetta er örugglega pítsan
H: ok
(Hallur gengur til dyra og opnar, fyrir utan stendur dvergur í svörtum jakkafötum með svört gleraugu)
D:Góða kvöldið, býr Aron hér?
H: uhhhhhhhhh, já, bíddu aðeins. Aaaron, það er uhh, maður, hérna sem að vill tala við þig
(Dvergurinn lætur sig þetta engu varða og gengur beint inn, að sjónvarpinu og slekkur)
A: Hei, ég var að horfa á þetta!
D: Við höfum mikilvæg mál að ræða. Ég er frá fyrirtæki sem að kallast trésólar og er hér til að gera þér tilboð sem þú átt erfitt með að hafna.
(Um leið og hann sleppir orðinu heyrist lágt suð og býfluga sveimar inn, stingur dverginn sem að dettur samstundis niður dauður)
A: Sjittttt, hvað var þetta?
H: Er í lagi með hann?
(Aron athugar hvort að dvergurinn sé með púls)
A: Nei hann er dauður
H: Ha??????? En hvernig? Hvað í ósköpu....
(Á sama tíma ryðst inn hópur af svartklæddum dvergum sem bera látna dverginn út á herðum sér)
(Aron og Hallur sitja agndofa inni í stofunni þegar að dyrabjallan hringir í annað sinn)
A: Ummm, ætlar þú?
(Pítsan var komin)
 
 
Betri er kelda en krókur

Áðan gekk ég í mesta sakleysi mínu í átt að tónskóla mínum. Ákvað að venju að taka stíg sem að styttir leið mína um það bil heil fjögur skref. Um leið og ég steig fæti niður á stíginn datt ég kylliflöt. Fætur fyrst upp í loftið og svo, krashhhhh, bakið og allt í. Það er sko ekki málið að detta í pilsi. Komst líka að því að heilsárs jú jitsú nám var ekki að gera sig, þar lærir maður að DETTA, en samt setti ég höndina fyrir sem að maður á ekki að gera. Annars var það bara fínt, var fyrir utan elliheimili þannig ef nokkur sá mig eru þeir búnir að gleyma því. Nei, skamm Ásta, maður á ekki að vera vondur við gamla fólkið.
Á leiðinni til baka kom fram í mér mikill mótþrói og fór sömu leið til baka og datt ekki! Þannig að það sannaði bara að kelda er betri en krókur.

Annars get ég deilt því með ykkur að það er ekkert lygi að maður geti dottið um bananahýði. Þetta er ekki eitthvað sem að gerist eingöngu í teiknimyndum. Neinei, ég er einmitt manneskjan sem að lendir í þessu.
Eitt sinn var ég að ganga í átt að sjálfrennireið heimilisins þegar mér skrikar fótur og renn um þetta sleipa bananahýði, næ samt að bregði hinum fætinum fyrir mig og detta ekki alveg.
Hitt sinnið var ég á generalprufu fyrir tónleika og var bananahýði á gólfinu, þegar ég geri mig reiðubúna til að standa á fætur til að gera mig tilbúna þá renn ég og dett með tvær töskur og ekkert nema lætin. Reyndar eru viðstaddir ekki alveg sammála hvort að ég hafi runnið um hið meinta bananahýði eða bara helber klaufaskapur í mér. Ég held mig við bananahýðið. Þau eru svo skemmtileg.

Tilefni að því að nú er vetur:

Snjókorn í lófa

Af vatni ertu
komið og að vatni skalt
þú aftur verða

(Andri Snær, Ljóðasmygl og skáldarán)

Mér finnst þetta æðislega krúttað ljóð

Andvarp, vildi að ég gæti samið ljóð! Jæja, hef samið nokkur en þau eru já kannski sooooldið skrýtin:

Lítil padda skríður á jörðu, skríður, skríður, skríður
er að nálgast áfangastaðinn þegar að risa fótur
kemur af himnum ofan
boink
guði sé lof, hugsar paddan, fyrir X18 munstrið

Annað sem að nokkrir af mínum lesendum ættu að kannast við (;

Halló, halló
ómaði í sjónvarpstækinu
rauðleit furðuvera
segir
aftur, aftur



 
miðvikudagur, desember 10, 2003
 
Maður var nefndur Barði. Hann átti enga þá ósk heitari en að verða píanóleikari en í hvert einasta skipti sem að hann settist niður við píanóið flæktust bara fingurnir á honum og hann gat ekkert spilað, ekki einu sinni góðu mömmu. Hann æfði sig og æfði sig en ekkert gekk (hann hafði jú heyrt að æfingin skapaði meistarann). Dag einn sat hann í baðkarinu sínu og þá fann hann eitthvað koma yfir sig, tónlistartilfinning yfirtók hann allan, fingurnir sperrtust út í loftið og hann vissi að hann gæti spilað. Hann rauk fram úr baðinu, hafði ekki einu sinni fyrir því að grípa með sér handklæði og settist spenntur við píanóið. En allt kom fyrir ekkert. Hann gat ekki spilað svo mikið sem einn lagbút, hin gamalkunna fingraflækja lét sig ekki vanta. Hann gekk niðurlútur aftur inn á baðherbergið sitt, bætti smá heitu vatni við í baðkarið (það hafði kólnað á meðan hann var í burtu) og lét sig síga ofan í. Það leið varla mínúta áður en hann fann þessa tilfinningu koma yfir allan líkamann sinn aftur, lagbútar hljómuðu um allan líkamann og fingurnir hreyfðust á píanólegan máta. Hann stökk í annað sinn fram úr og rauk að píanóinu. En ekkert gerðist. Ekki svo mikið sem eitt do re mí. Hann fór stórstígur aftur að baðkarinu og vatnið draup af honum því ekki hafði hann heldur haft fyrir því að taka með sér handklæði í þetta skiptið. Lét sig síga í þriðja sinnið ofan í baðkarið og andvarpaði djúpt. Áður en hálf mínúta var liðin gerðist þetta í þriðja skiptið, tónlistartilfinningin heltók hann allan. Honum datt í hug að rjúka (og jafnvel grípa með sér eitt handklæði, það væri svo fjári kalt annars), þar sem allt er þegar þrennt er, en þegar ekkert gekk gerði hann sér grein fyrir því að þetta væru áhrif baðkarsins. Hann gæti ekki spilað nema að hann væri í baði. Hann lét hendur standa fram úr ermum. Fór strax að vinna í þeim málum. Hann endurskipulagði baðið þannig að baðið stóð nú á miðju baðgólfinu, hann lét rífa niður vegginn sem að hurðin var á svo að hann gæti ýtt flyglinum sínum að baðinu. Loks var það tilbúið. Hann fór spenntur í bað og viti menn, um leið og hann var kominn ofan í baðkarið gat hann spilað. Hann gat spilað hvað sem var. Allt frá Gamla Nóa upp í krefjandi sinfóníur og hann þurfti ekki einu sinni nótur, þetta vall bara upp úr honum. Lag eftir lag eftir lag. Hann gat samið sín eigin lög sem voru fagurlega skrifuð og falleg. Hann sat í baðkarinu marga klukkutíma á dag og tónlistin hans hljómaði um allt hverfið. Dag einn þegar að Barði sat sem endranær í baðkarinu sínu bankaði upp á hjá honum maður sem að hafði verið að ganga fram hjá. Þetta var umboðsmaður og afburðu tónlistarmaður. Hann heyrði strax að þetta var engin venjuleg tónlist heldur spiluð vel og af svo mikilli innlifun að unun var á að hlýða. Hann sagði að hann yrði að gefa út disk með þessari tónlist. Barði útskýrði þá fyrir honum vandamál sín. Hann gæti einungis spilað þegar að hann væri í baði. Sagan kvisaðist út um allan bæinn, allir fréttu af manninum sem gat ekkert spilað nema að hann sæti ofan í baðkari og þá hljómuðu tónar hans svo undurfagrir. Fréttamenn bönkuðu upp á og tóku viðtal við hann þar sem að hann sat í baðinu og spilaði smá fyrir þá og sagði sína sérstæðu sögu. Allir vildu heyra meira. Gefinn var út diskur eftir hann; Barði í baði, sem var tekinn á hans eigin baðherbergi. En fólk vildi meira það vildi sjá hann leika, heyra í honum í eigin persónu. Ríkisstjórnin fór að fá bréf frá fólki í tonnavís. Loks var komist að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að fara að byggja tónleikahús í Reykjavík, nógu lengi hefði nú verið beðið. Tekist var við að byggja. Nokkrum mánuðum síðar var húsið fullgert. Á miðju sviðinu var baðkar.
 
þriðjudagur, desember 09, 2003
 
Þvílík gleði! Ég hef lokið prófunum þessa önnina! Bara att bú. Mér gekk bara vel í prófunum, sem er ekki gott. Það hljóta að liggja dulin skilaboð í því, að þau hafi í raun gengið hræðilega. En það kemur í ljós á prófsýningardegi og langt í það já.

Á veggnum í hergerginu mínu er sprunga. Þessi sprunga nær frá gluggakistu og niður á gólf. Fyrst var hún bara aumingjaleg og sást varla, þá tók ég eftir henni og núna er hún það svo sannarlega ekki. Hún er nefnilega bæði mjög hentuglega staðsett og óhentuglega. Hún er við rúmið mitt og eiginlega bak við gluggatjöldin og sést því varla frá neinu sjónarhorni nema þar sem að ég ligg í þessu rúmi. En sprungan var voða ræfilsleg þangað til að ég uppgötvaði að ef ég potaði og ýtti á hana þá hryndu steypubútar og málning á gólfið. Maður gerir ekki slíkar uppgötvanir án þess að prófa alla sprunguna. Núna er ég farin að hafa áhyggjur af því að fara í gegnum vegginn, sem væri óhentugt því þessi veggur vísar út í garðinn. En ég þori nú eiginlega ekki að nefna þetta við foreldrana, þetta mundi þýða breytingar og eftir hið mikla breytingaskeið sem að húsið mitt hefur verið að ganga í gegnum held ég að það sé vissara ekki að minnast á slík orð. Sérstaklega eftir atburðina sem að gerðust nýlega. Hina hræðilegu Habitat atburði (dammdammdammdammmmmm). Það atvikaðist svo að móðir mín trítlaði í Habitat, þar keypti hún eitt stykki baðinnréttingu. Einnig keypti hún ljós sem henni fundust nú kannski þó nokkuð dýr (í raun er þetta ljós fjórar perur á silfurlituðumplatta) en ákvað að vera ekki með neinn sparnað. Afgreiðslukonan segir henni að ef hún lendi í vandræðum með að fá perur í ljósið eigi hún bara að hafa samband við Habitat (þetta voru soldið sérkennilegar perur). Mamma jánkar þessu og trítlar út aftur með baðinnréttinguna undir annarri hendi (eða nokkurn veginn) og skellir henni upp og kemst að því að ljósið gaf of skæra birtu fyrir þetta litla baðherbergi. Hún hringir í Habitat þar sem henni er bent á að tala við Árna nokkurn. Í þetta sinn skondrast hún niður í Habitat og finnur þennan mann, brosir og býður góðan dag. Þá urrar aðeins í manninum, líklega til að taka kveðjunni ekki þó víst það gætu hafa verið óþægindi í hálsi eða eitthvað annað. Móðir mín örlítið hissa á frekar óþjónustulegri lund en tekur þó að lýsa vandræðum sínum. Maðurinn bregst hinn reiðasti við urrar illilega á hana að hún sé neikvæð og að þetta væru alveg frábær ljós, og varði ljósin eins og þetta væri hans eigin börn sem að hún hefði formælt hryllilega. Móðir mín reynir að andmæla örlítið og segir að hún vilji nú bara aðeins daufari perur. Maðurinn kemur með ræðu um hve frábær ljósin séu, hann var eins og teiknimyndapersóna þar sem slefið frussaðist yfir móður mína og vindurinn feykti hárinu aftur svo fjálglega talaði hann um gæði ljósanna og vanþakklæti móður minnar. Eftir ræðuna tókst móður minni þó að komast að því að svo vildi til að Habitat seldi ekki perurnar í þessi æðislega og yfirgengilega frábæru ljós. Á endanum samþykkti maðurinn með þykkju að komast að því hvar perurnar væri seldar og móðir mín yfirgefur staðinn og örlítið stórstígari en þegar hún trítlaði þar inn fyrst. Maðurinn hringir í hana og segir henni að hún geti keypt þær í einhverri búð, kosti bara 1100 krónur stykkið (og eru fjórar perur í ljósinu), sem er nú kannski lágt verð þar sem að þetta eru nú alveg frábær ljós! Móðir mín svo miður sín að hún kvartar í neytendaráð enda fáranleg hegðun af starfsmanni.
Komst hún að því að fleiri hefðu lent í þessum vanstillta manni. Ein samstarfskona hennar, lítil og pen, keypti sér borðstofusett og var lofað afslætti vegna þess að hún ætlaði að staðgreiða (þurfti að koma síðar til að borga því að það vantaði einhverjar leðursessur). Þegar hún mætir síðan og minnist á afsláttinn, en það er einmitt Árnamaðurinn sem afgreiðir hana, þá bregst hann brjálaður við, teygir sig yfir búðarborðið, grípur um öxlina á henni (bláókunnugri manneskjunni!) og hristir um leið hreytir hann út úr sér að hann taki ekki þátt í slíku kapphlaupi um afslætti!
Maðurinn er nottla alveg spinnigal. En báðar þessar konur hafa heitið því að stíga aldrei framar fæti inn í þessa búð. Já, en eftir þessar erfiðu breytingar hef ég ekki hug í mér að benda á að það sé sprunga á veggnum mínum sem að nái bráðum í gegnum vegginn.

Það voru einmitt alveg klikkaðar breytingar í gangi um daginn, skella upp vegg hér og þar og ég veit ekki hvað. Og var þá hitt baðherbergi hússins einnig aðeins snurfusað. Á flísarnar sem voru á veggnum komu nokkur leiðinleg göt vegna þess að um klósetthaldara var skipt (hann var að sjálfsögðu ekki keyptu í Habitat!). Móðir mín spyr mig hvað hún eigi að gera í þessu, í hálfkæringi og glensi svara ég: skelltu bara barbídúkku þarna og flissa enda hjákátleg tilhugsun. Mamma: alveg frábær hugmynd! Er nú búið að grafa upp gamla barbídúkku frá mér, skella henni í blómakjól, nú situr hún á klósettpappírshaldaranum með nærbuxurnar niður um sig og heldur á litlu dagblaði sem við útbjuggum og hylur gatið með fótleggjunum. Ég get þó ekki sagt annað en að móðir mín taki mig alvarlega!

En þetta ætti að duga. Í gær þegar að ég varð að læra duttu mér báðar þessar sögur til að blogga um sem og um það bil þrjátíu aðrar. Stóð mig að því að sitja með efnafræðina og fatta að ég væri ekki að lesa heldur blogga í huganum. Hve langt leiddur í bloggfíkn er maður? Jæja, en prófin búin, get með góðri samvisku setið og bloggað (fyrir utan að ég þyrfti nú eiginlega að vera að æfa mig), eiginlega dregur það samt úr skemmtanagildi þess. Mann langar aldrei meira til að gera, já eiginlega bara allt, þegar að maður á að vera að læra!





 
sunnudagur, desember 07, 2003
 
Áðan sat ég í bílnum og var að keyra til að sækja hann litla bróður. Þá datt mér í hug svona áttaþúsund hlutir sem að ég þyrfti að blogga um. Ég man ekki einn einasta núna. Gaman að segja frá því.

Fyrst að efni eru af skornum skammti ætla ég bara að vera með ættarmont. Ég hef nýverið komist að því að litli bróðir minn, sá hinn sami og ég var að sækja áðan, er víst snillingur. Hef svosum vitað af því. En það vill þannig til að hann var að taka 7. bekkjar samræmdu prófin um daginn og þar fékk hann tíu í stærðfræði, allir liðir voru sundurliðaðir, og fékk hann tíu í hverju og einu einasta. Í íslensku fékk barnið 9,5. Þar var það að draga hann niður að hann fékk bara 8 í ritun.

Síðan stundar barnið skák og hefur unnið mýmargar medalíur í þeirri íþrótt, þar af eina áðan.

Þessi drengur kann samt ekki að taka strætó.

Stórmerkilegt.


Uppáhaldsljóðahöfundur minn núna er Andri Snær. Maðurinn er bara snillingur.

Tanka um vorið á öðrum sumardegi

Helvítis fuglar!
hættið strax að trufla mig
ég er að reyna
að yrkja ljóð um vorið
snautið ykkur skammirnar!

(Ljóðasmygl og skáldarán)

Já, en nú hef ég fátt meira að segja. Dagur að kveldi kominn. Og ég held að ég þurfi að fara að taka til í herberginu mínu, þar er hætt að sjá til gólfs. Vesen.
Verst að ég er ekki með ferðatösku inn í herberginu mínu.
Já, það ráð notaði ég einmitt á síðust önn. Taskan mín stóð enn á gólfinu inni í herberginu hjá mér nokkrum vikum eftir að ég kom heim frá landi Rússanna. Þannig að ég þar sem að ég hef ráð undir rifi hverju henti öllum lausum blöðum sem að þöktu gólfið sem og öllum bókum ofaní töskuna og lokaði. Hafði þetta bara þar ofaní þar til lokapróf skullu á og þurfti þá því miður að sortera allt, sem tók gríðarlegan tíma! Skondið var þegar ég þurfti að nota eitthvert blaðanna fyrir námið þá þurfi ég að opna töskuna og gramsa þar til að ég fann það. Vá, ég er svo skipulögð nefnilega.

En þar sem að engin er ferðataskan núna inni í herberginu held ég að ég verði bara að leggjast svo lágt og bara taka til! Man ekki alveg hvernig sú athöfn fer fram enda æði langt síðan annað eins gerðist.

Úff.

Jæja, illu er best af lokið. Þó að mér líki betur við málsháttinn: illu er best skotið á frest! Sem að rímar og er í raun miklu betri málsháttur
 
laugardagur, desember 06, 2003
 
Vá, í morgun vaknaði ég og var aldeilis ekki hress. Ekki var það vegna djamms eða annars slíks heldur einfaldlega gat ég ekki sofið í nótt. Fór meira að segja að sofa fyrir 12 í gær af mikilli samviskusemi enda þurfti ég að vakna átta í morgun til að mæta á samspilsæfingu niðrí tónskóla og til að fara í hljómfræðiprófið sem að ég reyndi að læra fyrir í gær. Ég mætti korteri of seint á æfingu, en þá var ein af þremur sem ætlaði að mæta komin. Hún var þá tiltölulega nýkomin, hin mætti bara ekki yfirhöfuð. Þannig að við hreyfðum okkur ekki fet, því að það tekur því ekki að spila tvær í kvartett.
Síðan fór ég í hljómfræðiprófið. Þar sat ég í fjóran og hálfan tíma!!! Gekk allt á afturfótunum, því miður.

Fjölskyldan mín er svo týpísk vísitölufjölskylda að Gallup finnur sig knúið til að hringja alltaf í okkur ef einhver könnun er í gangi hjá þeim. Það er hringt að meðaltali 1-2 í mánuði í ýmist mig, móður mína, eða föður. Það er samt ekkert sniðugt af þeim að hringja í mig, ég segi alltaf já við þessu símafólki, síðan spyr það samviskusamlega spurninganna og ég svara samviskulega, ég veit það ekki! Eða svona meðal. Ég er svo óákveðin og það tekur mig alltaf langan tíma að komast að niðurstöðu að svona símakannanir eru ekki sniðugar fyrir mig! Ég er spurð spurningar svo íhuga ég hana í smástund þangað til að ég kemst að þeirri niðurstöðu að ég nái ekki að komast að niðurstöðu áður en fólkið fer að geispa, þannig að ég svara einhverju óákveðnu! Þetta er stórmerkilegt. Síðan er svo fyndin spurningin sem að kemur alltaf í lokin: Fannst þér þess könnun; of stutt, hæfilega löng eða alltof löng! Þá fyrst gat ég farið að svara af viti!!

Annars er ég farin að hafa áhyggjur af því að ég sé að verða eins og foreldrarnir, alla vega í umferðinni. Móðir mín talar alltaf hátt og snjallt við hina bílstjórana, eins og t.d. þetta er hringtorg bjánarnir ykkar! Ég er alveg farin að tala við hina bílstjórana, sagði einmitt þetta áðan! Sem er frekar skondið því að ég höndla engan vegin hringtorg ef akreinarnar verða fleiri en ein! Reyndar var þetta við hringtorgið sem er við nóatún, sem er fáránlegasta hringtorg sem ég veit um, bílstjórarnir eru alltaf eins og villuráfandi sauðir þegar þeir koma að því og vita varla lengur hvort þeir voru að koma eða fara.

Þar sem að það eru próf núna hlusta ég meira á tónlist, sem er kannski skrýtið en ég hlusta aðallega á tónlist þegar ég er að læra. Ég nenni sjálf ekki að hala niður tónlist (tíhí, vildi ekki segja dánlóda sko) þannig að ég hlusta bara á það sem pápi nær í. Það er rosalega fyndið.
Sneiði reyndar framhjá slatta, nenni ekki að hlusta á djass og fleira. En annars er þetta flest hin prýðilegasta tónlist. Mjög fjölbreytt, alltaf fyndið þegar að maður rekst á lög með Britney Spears og Christinu Aguilera og Aqua og eitthvað. Veit ekki alveg hvort hann hlustar á það, maður veit aldrei, fyndinn hann pabbi.

Það sem að mér finnst skemmtilegast núna er Stairway to heavan með led zeppelin, higher and higher með jet black joe, sem er snilld, queen, og eivör páls geðveikt lagið sofðu unga ástin mín og sigur rós og líka emilíana torrini. Hmm, já þetta er það sem að ég hlusta aðallega á núna á meðan ég er að læra.
Vorkenni rosalega fjölskyldu minni á meðan að ég er í prófum, ég sit alltaf einhvers staðar með heyrnartól í eyrum og syng með hástöfum. Sem er mjög slæmt fyrir þau því ða ég held ekki lagi rosalega vel ef að ég heyri ekki í sjálfri mér á meðan. Þarf að heyra í mér til að hitta nokkurn veginn á réttar nótur. Uppáhalds stærðfræðidiskurinn minn er mjög skondinn, búin að hlusta á hann alla vega síðustu 2 lokapróf, það eru lögin úr kolrössu krókríðandi sem var sett upp af hugleik. Sit ég og munda blýantinn og og reiknivélina alveg eins og fáviti. Geðveikt gaman hjá mér alltaf.
Mér finnst Coldplay líka skemmtilegt, það er nebbla lag með þeim núna í gangi.

En vá, hvað ég er búin að rausa mikið. Þetta er magnað. Haldin einhverri ritræpu í augnablikinu. Merkilegt.

 
föstudagur, desember 05, 2003
 
Þá hef ég lokið næstum öllum prófunum, ef frá eru talin hljómfræðin á morgun og svo efnafræðin á þriðjudag. Er búin að skemmta mér konunglega í prófunum og læra og læra og alls konar álíka ógáfulegt. Leik alveg á als oddi. Hlakka samt til að klára þau þrátt fyrir að þurfa að læra alla sé ágætis dægrastytting og frábært augljóslega í alla staði.

Í dag var ég í jarðfræðinni og spænskunni. Alveg að brillera í jar... Kannski ekki alveg, það var alltaf verið að spyrja mann út í einhver jarðfræðileg atriði og ég skyldi bara ekkert í þessari nærgöngli! Kannski vil ég ekkert segja þeim hvort að þetta sé myndað við gos undir jökli eða á sprungu! Þessir kennarar.

Ætti kannski að fara að drífa í þessari hljómfræði.......

Og geimverur koma úr geimnum. Já las færsluna yfir og sá að hún var eingöngu um skólann, sem er frekar slæmt. Þannig að ég skellti einni staðhæfingu með svona í lokin.
 
Mestmegnis bull, en ef vel er gáð, hver veit? Kannski að þið rekist á eitthvað af viti...

Úmpalúmpar

Vilborg Sigga Sara Salóme Pabbi Margrét Mamma Lísa Líney Kristjana Kristín Katla Íris Hugi Hjálmar Héðinn Heiða Guðný Eyrún Björgvin Bjarnheiður Berglind Árni Bjöss Arngrímur
Úmpalúmpaleikföng

Stærðfræðiheimur Stigull Rithringurinn Mæspeisið Margt og merkilegt Ljóð.is Hvarf Hotmeil Háskólinn Dindill

Powered by Blogger



Fornrit

09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 07/01/2011 - 08/01/2011 /