<$BlogRSDURL$>
Dvel ég í draumahöll og dagana lofa
miðvikudagur, febrúar 17, 2010
  Borg hinna mörgu hundaskíta
Ég er hrærð yfir því að heilar 13 manneskjur hafi áhuga á að lesa bloggið mitt og gengið í þar til gerðan fésbókarhóp.

Síðan síðast hefur heilmargt gerst. Enda lifi ég spennuþrungnu lífi.
Fyrir jól vorum ég og meðleigjandinn yfirleitt í góðri sveiflu saman.
Við náðum reyndar ekki saman að innri kjarna persónuleika okkar, en við ræddum oft rigninguna eða snjóinn. Einstaka sinnum brugðum við okkur út fyrir öruggt svæði veðurumræðna og spjölluðum um klassíska tónlist.
Meðleigjandinn minn fyrrverandi er áhugaverð. Hún hefur búið hér í Skotlandi í yfir tíu ár, þar af sirka 9 ár í íbúðinni sem ég bjó í. Já íbúðinni með sundurleitu húsgögnunum, ljótu teppunum. Skrautmunir í íbúðinni voru á borð við bleika kanínubangsann í stofuglugganum ásamt tómu lyktareyðishulstri - báðir hlutir litu út fyrir að hafa staðið í gluggasyllunni frá því blokkin var byggð.
Í íbúðinni var nauðsynlegt að tileinka sér sérstakt lag þegar maður opnaði flestar hurðir því að hurðahúnarnir voru sjaldnast áfastir. Eldavélin leit út fyrir að hafa verið framleidd á tímum risaeðlanna, og virkuðu ekki allar hellurnar. En það er auðvitað ofmetið því maður notar hvort eð er aldrei fjórar hellur í einu.

Skotar nota ekki litla innkaupapoka undir vaskinn sem rusl, heldur stóra tunnu inná miðju eldhúsgólfi með svörtum poka. Það tekur því viku að fylla ferlíkið. Ég gerði ýmsar kannanir á skítaþröskuld meðleigjanda míns. Fyrst fór ég alltaf út með ruslið þegar það var fullt. Síðan ákvað ég að gera tilraunir á því hve lengi það þyrfti að vera fullt til að meðleigjandinn færi út með ruslið. Það var langur tími. Einu sinni var ruslið búið að vera fullt í fjóra daga (og alltaf bara troðið í það ofan á, þannig að lokið nálgaðist loftið smám saman) þegar ég fór með það út. Reyndar kom það fyrir að hún tók ruslapokann úr ruslinu og setti hann á gólfið inni í eldhúsi. Fyrst gerði ég þá ráð fyrir því að hún myndi skottast með hann næst þegar hún ætti leið niður, enda íbúðin á efstu hæð. En þegar ruslið var búið að vera það lengi á gólfinu að ruslafatan sjálf var full aftur þá gaf ég upp von og fór út með ruslið. Ég gerði margar aðrar tilraunir á heimilisþrifum meðleigjandans, eins og t.d. hve grænt niðurfallið í baðvaskinum þyrfti að vera til að hún þrifi hann. Það kom aldrei fyrir. Svo það var ég sem þreif - alltaf! Tja, ég held reyndar að hún hafi sópað eldhúsið einu sinni.
Ljósskermurinn á baðherberginu var áhugaverður og ég horfði oft á hann löngum stundum þegar ég var í sturtu. Á honum var þykkt lag af ryki. Þykkt lag nær ekki að lýsa því hve þykkt það var. Það var nánast heillandi. Í tilefni af heimsókn móðureintaksins þurrkaði ég af skerminum og komst að því mér til undrunar að hann var dökkblár ekki grár. Mér hefur aldrei áður liðið eins og jafn miklum snyrtipinna.

Okkur meðleigjanda kom þó ágætlega saman og einu sinni gaf hún mér meira að segja eplakökusneið. Þetta var ljómandi samband.

Nýja íbúðin hefur marga kosti umfram hina. Meðleigjandinn er skemmtilegri. Húsgögnin fallegri. Teppin eru ný. Eldahúsið ekki uppá marga fiska, en vel brúklegt (fyrir utan suma potta og pönnur en notkun þeirra myndi þýða bráða ryðeitrun). Í svefnherberginu er gardínurúm, sem betur fer, á því er smekklegra mynstur en því gamla og gormarnir stingast ekki jafn harkalega í bakið á manni.
Ókosturinn við íbúðina er að þetta er eldra hús. Það er fallegra á að líta, en svo virðist sem að einangrun hafi ekki verið til í orðaforða Skota þegar þeir byggðu þessi steinklumpahús. Það eru tveir ofnar í húsinu og það dugir varla til nokkurs að setja þá á fullt því hitinn helst ekkert inni í húsinu. Bara búmm. Rokinn út. Það ku vera óhentugt því kynding er dýr.
Eftir að hafa hlerað hvernig fólk hagar sínum málum þá virðist vera kappsmál að hita sem allra minnst. Fólk gortar af því að hita bara einn klukkutíma á dag. Við erum ekki komnar í þann pakkann ennþá, en mögulega sjáum við eftir því þegar við fáum reikninginn – eftir þrjá mánuði.
Nýjasta trikkið sem við pikkuðum upp er hitapoki. Tóta gaf mér fagurbleikan hitapoka, sem ég skírði Hansínu, og síðan þá höfum við Hansína verið óaðskiljanlegar. Ég held ég verði hreinlega að hlaða myndavélina mína til að skella inn mynd af henni.

En þrátt fyrir kyndingabasl og slaka potta þá er eitt sem bætir þetta allt upp: Gerviarinninn.

Hvers meira getur maður eiginlega óskað sér?
 
Mestmegnis bull, en ef vel er gáð, hver veit? Kannski að þið rekist á eitthvað af viti...

Úmpalúmpar

Vilborg Sigga Sara Salóme Pabbi Margrét Mamma Lísa Líney Kristjana Kristín Katla Íris Hugi Hjálmar Héðinn Heiða Guðný Eyrún Björgvin Bjarnheiður Berglind Árni Bjöss Arngrímur
Úmpalúmpaleikföng

Stærðfræðiheimur Stigull Rithringurinn Mæspeisið Margt og merkilegt Ljóð.is Hvarf Hotmeil Háskólinn Dindill

Powered by Blogger



Fornrit

09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 07/01/2011 - 08/01/2011 /