<$BlogRSDURL$>
Dvel ég í draumahöll og dagana lofa
laugardagur, apríl 29, 2006
 
Sá sem fékk einbeitinguna mína að láni þann 5. maí 2004 er vinsamlegast beðinn um að skila henni í höfuð mitt sem fyrst.

Þetta er lokaviðvörun. Sektir sökum vanskila fara hækkandi með hverjum degi og munu viðurlög brátt varða við fangelsisvist.
 
föstudagur, apríl 28, 2006
 
Ég fór á ljóðakvöld um daginn.
Kynnirinn hefur skrifað kennslubækur í íslensku.
Hann kynnti eins og fræðilegt íslensku rit. Hann bar fram spurningar til Þórarins Eldjárns, ljóðskáldsins sem las upp ljóð sín, eins og litla fyrirlestra þar sem aftan á var búið að hengja spurningu (án þess þó nokkurn tímann að bregða af fyrirlestrar raddblæ).

Á leiðinni heim gat móðirin varla orða bundist. Talaði fjálglega um þetta hrökkbrauð af manni.
Þá tísti í mér: Já, algjört Finnkrisp.

Og nú kemur loksins að tilgangi færslunnar. Finnkrisp minnir mig bara á eitt.
Uppáhalds brandara minn:

Einu sinni var fíll að borða kjötkássu. Þá fór kjötkássan að gráta.
"Af hverju ertu að gráta kjötkássa litla?" spurði fíllinn.
Þá snökti kjötkássan: "Því mig lahangar svoooo í mótorhjól!"
 
fimmtudagur, apríl 27, 2006
 
Einu sinni fór ég í viðtal ásamt tveimur öðrum ungmennum. Ákaflega pólítískt þenkjandi og aktív bæði tvö. Þau hreinlega áttu viðtalið svo ég hélt mér til hlés, enda hvað veit ég um stjórnmál og hugsjónir?
Ég fann hvernig mér fannst ég óæðri. Hálfvitlaus. Sem ég er ekki. En í einhvern tíma þar á eftir hugsaði ég að nú yrði ég að leggjast yfir stjórnmál. Komast til botns í þeim (eða í það minnsta synda í þá stefnu).
Ég hef oft fyllst þessari minnimáttarkennd, sérstaklega í kringum fólk sem virðist hafa allt sitt á hreinu. Óskaplega vel að sér í málefnum líðandi stundar, kemur vel fyrir sig orði og er klárt og sjálfsöruggt.
Og þá fæ ég þessa tilfinningu. Hvað er ég að vilja uppá dekk? Bara einhver stelpa. Kjánaprik. Sem bullar út í eitt og kemur ekki stöku orði frá sér rétt.

Í gærkvöldi fann ég hvernig ég efaðist um eigin tilvist og réttmæti ljóðsins míns.
Las skoðanir drengs sem er einn af þeim sem virðast hafa hlutina á tæru. Útgefnar ljóðabækur, bækur og þýðingar. Miklar og djúpar skoðanir á ljóðum og ljóðlist.
Og svo er það ég og ótitlaða ljóðið mitt sem er það eina sem hefur birst nokkurs staðar eftir mig, ef frá er talið ljóðið sem ég samdi í tólf ára bekk og birtist í skólariti Laugarnessskóla.
Tilfinningin skaust upp á yfirborðið; ég er bara telpa. Sem veit ekki neitt.

Hann hefur fullan rétt til að birta skoðanir sínar. Hann hefur fullan rétt til að finnast ljóðið mitt vera húmbúkk og hroðbjóður.
Enda á maður að geyma hlutina ofan í skúffu ef maður getur ekki tekið gagnrýni.

Þessi tilfinning sprettur ekki af því að einhver er ósammála heldur af ósjálfsöryggi gagnvart þeim sem eru ó svo klárir.

Ljóðið er ekki tímamótaverk eða meistarastykki. En það er samið útfrá þessu lélega sjálfstrausti. Kannski gegn þeim sem vita allt.
Ég er nefnilega ekkert verri pappír þó ég hafi ekki allt á hreinu - eða yrki ekki framúrstefnulega frábær ljóð.

Ég er stelpugopi. Og finnst það fínt.
 
miðvikudagur, apríl 26, 2006
 
Er ég þá alvöru?
Nja. Held ég sé ennþá bara stelpuskjáta.

*Varúð: Þetta er svona þakkarræða þar sem ég brest í grát, dreg upp vasaklút en brosi samt, að sjálfsögðu, gegnum tárin*
Takk óendanlega í áttunda veldi!
Hebbði ekki getað þetta án gjörsamlega ofvirks fólks.
Með móður og föður á hliðarlínunni (pottþétt í klappstýrubúningum með pompoms)
Helga Há, sem dró alla fréttastofuna (og aðra grunlausa) að ljóðinu og skipaði að kjósa.
Og auðvitað ömmunnar. Sem lærði að fylla á inneign í heimabankanum (því hún var alltaf að klárast, spes)
*Hér er ég komin á fjórða vasaklút*
Takk æðislega þið; allar dúllurnar mínar!
Jiiiiiiiiiii.
*Sýg pent upp í nefið, þurrka lauslega hvarmana, brosi hógvært og hneigi mig lítillega í dynjandi lófataki*
 
þriðjudagur, apríl 25, 2006
 
Vá takk. Þið eruð mögnuð.
Ég þjáist núna af samviskubiti sem kemur til af sjúkdómnum: þiðeruðbúinaðeyðaofmikilliinneigníeittljóð (hverjir í ósköpunum skíra sjúkdóma? Þetta heiti finnst mér með eindæmum óþjált!).

Svo ég segi aftur:
Vá takk! Þið eruð mögnuð!

Er í það minnsta komin í tveggja ljóða úrslitin sem eru í dag.
Það er nú bara oggu kúl.
 
mánudagur, apríl 24, 2006
 
Ég hef sterklega grun um að til sé flokkur dverga sem læðist um heimilin á næturnar og flækir og bindur hnúta á allar snúrur.

Sérstaklega fartölvusnúrur og heyrnatól.
 
sunnudagur, apríl 23, 2006
 
Úúúú. Ég komst áfram í ljóðaljóðakeppninni.

Fréttablaðið klúðraði reyndar uppsetningunni þannig hvergi kemur fram hvernig á að kjósa.

Ef ykkur langar óskaplega mikið að kjósa mig má senda:

JA L2

í númerið 1900.

Einmitt einmitt elsku dúllurassarófur.
 
laugardagur, apríl 22, 2006
 
Dísess skiluru. Ógisla fræg skoh.
Var í Séð og heyrt í síðustu viku og viðtal í Fréttablaðinu í dag.
Dísess skiluru. Ógisla fræg skoh.
 
föstudagur, apríl 21, 2006
 
Ég get svo svarið að ég sá sumarið einhvers staðar í gær. En finn það hvergi núna.

Hlýt að hafa lagt það frá mér á sérkennilegum stað.
 
fimmtudagur, apríl 20, 2006
 
Nei sko.
Það er komið sumar.
 
miðvikudagur, apríl 19, 2006
 
Átján kílóa hunangsfluga heldur mér í gíslingu óttans. Suðið í henni var áhrifaríkasta vekjaraklukka sem ég hef komist í tæri við. Er hún sveimaði í glugganum sá ég að hún virtist nógu stór til að kremja mig til ólífis ef hún mundi tylla sér á mig.
Móðirin sagði mér að hætta þessu væli og fanga hana í glas. Ég held að ruslatunna væri nær lagi fyrir þetta flykki.
Hef reyndar ekki heyrt í flugunni síðan húsið hristist og dynkur heyrðist - þegar hún flaug á vegg.

Ef ég verð undir í baráttunni við ferlíkið þakka ég ykkur fyrir góðar stundir gegnum tíðina og öllu þessu fólki sem nennti að eyða inneign í mig og mitt ljóð.

Kær kveðja,
Ásta fluguhrædda.
 
mánudagur, apríl 17, 2006
 
Nágrannarnir virtust ekki vera par hrifnir af klarinett kunnáttu minni. Því á meðan ég æfði mig mátti heyra Robbie Williams glymja í hæsta.
Svo lækkuðu þau þegar ég var búin.
Gott á þau. Þetta eru nefnilega hávaðanágrannarnir. Verst að bróðirinn var ekki heima til að lemja á píanóið og móðirin nýbúin að senda steppskóna til skóarans.

Ójá. Svo er fréttablaðið skyldulesning á morgun. Ekki útaf ljóðinu, oseiseinei. Ég vil bara ekki að lesendur mínir séu illa að sér í málefnum líðandi stundar.
 
sunnudagur, apríl 16, 2006
 
Gleðilega páska og farsælt komandi sumar. Lifið í lukku en ekki krukku. En ef þið búið í krukku munið eftir loftgötum.
 
laugardagur, apríl 15, 2006
 
Í þá tvo tíma sem ég kenndi stærðfræði í dag var ég með opna buxnaklauf.

Vá. Ég er töff. Töff töff töff.
 
fimmtudagur, apríl 13, 2006
 
Í dag var ég með súkkulaði á nefinu (í fermingu).

Sem er við hæfi. Enda eru páskarnir hátíð súkkulaðisins, ekki satt?
 
mánudagur, apríl 10, 2006
 
Ég varð óskaplega hissa áðan þegar ég fékk símhringingu frá Kristjáni nokkrum.
Ég komst nefnilega áfram í Sigurskáldinu 2006. Ljóðakeppni fyrir þá sem eru 30 ára og yngri.
Skv. Kristjáni karlinum var mitt ljóð eitt af þeim átta ljóðum sem komust áfram. En þessi átta voru valin úr 400 innsendum ljóðum (að mig minnir, var oggu dösuð á meðan ég talaði við manngarminn).

En þriðjudaginn 18. apríl birtist það ásamt öðru ljóði í Fréttablaðinu. Síðan birtast hin ljóðin tvö og tvö næstu daga á eftir.
Síðan verður símakosning um sigurljóðið.
(Þið megið alveg kjósa mig sko)

Æhj, er pínu stolt yfir að hafa komist áfram. Og steinhissa.
 
sunnudagur, apríl 09, 2006
 
París.

Fór í parís í París.
Sá Frakka stíga af hjólinu sínu til að sparka í bíl og öskra á ökumanninn.
Sá líka Parísarbúa með baguette.
Og Sigurbogann.
Lék í bíómynd. Eða var kannski meira bara fyrir þegar verið var að taka hana upp. (Sá mann með svona svart klipp spjald og allt.)
Ofangreint gerðist áður en við svo mikið sem fundum hótelið okkar.



Fór í Eiffelturninn. Alveg efst. Það var hátt. Í bjartsýniskasti ákvað móðirin að það væri ekkert mál að labba niður af annarri hæð turnsins (þegar maður er svo hátt uppi virðast háhýsi bara vera lítil og sæt). Þegar við byrjuðum að labba mundi hún svo skyndilega að hún er lofthrædd. Lofthræðslan jókst svo eftir því sem neðar dró. Hnén á mér voru skelkaðri en ég.






Fór líka á markað. Og keypti lúður, lykla, plötur, krítar og fleira. Fékk gefins stein og koss á kinn af Frakka með alpahúfu og í röndóttum bol.

Labbaði um miðborgina þvera og endilanga í sól. Borðaði svo óhóflega mikið.



París er æði.
 
þriðjudagur, apríl 04, 2006
 
Ég hef loksins komist að því af hverju ég missi alltaf af strætó.

Eldhúsið hjá mömmu liggur hreinlega í öðru tímabelti. Það hefur hliðrast til og er því þremur mínútum seinna en hinn rétti tími.

Klukkan á símanum mínum er svo stillt fjórum mínútum of fljótt (til að sporna gegn því að ég mæti of seint. Virkar ekki því ég reikna alltaf samviskusamlega með þessum mínútum).

Þetta þrennt; rauntíminn, eldhústímabeltið og símatíminn, getur valdið stórum misskilningi.

Til að mynda til að ná strætó á morgnana þarf ég að leggja af stað tíu mínútur í. Á símatíma. Mér tekst samt alltaf að yfirfæra þann tíma á eldhústíma. Sem þýðir að ég legg sjö mínútum of seint af stað.

Þrátt fyrir að ég hafi komist að miklum leyndardómum í tímamálum geri ég engu að síður staðfastlega ráð fyrir því að missa af strætó í fyrramálið. Fer varla að bregða útaf vananum.
 
mánudagur, apríl 03, 2006
 
Ég stóð áðan úti á miðri gangstétt og horfði hissa til beggja hliða. Öðru megin við mig snjóaði en ekki var snjókorn á lofti hinum megin.
 
laugardagur, apríl 01, 2006
 
Nei sko. Ég átti víst ljóð dagsins í gær á ljóðpúnkturis. Gaman.

Skýjaglópur

þegar mig langar mest að sitja á skýi
í indjánastellingu
og byggja mér loftkastala
dreymin

þá kippir grámyglulegur veruleikinn
í mig
og ég fell til jarðar
dösuð
 
Mestmegnis bull, en ef vel er gáð, hver veit? Kannski að þið rekist á eitthvað af viti...

Úmpalúmpar

Vilborg Sigga Sara Salóme Pabbi Margrét Mamma Lísa Líney Kristjana Kristín Katla Íris Hugi Hjálmar Héðinn Heiða Guðný Eyrún Björgvin Bjarnheiður Berglind Árni Bjöss Arngrímur
Úmpalúmpaleikföng

Stærðfræðiheimur Stigull Rithringurinn Mæspeisið Margt og merkilegt Ljóð.is Hvarf Hotmeil Háskólinn Dindill

Powered by Blogger



Fornrit

09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 07/01/2011 - 08/01/2011 /