Ég er algjör sauður (nei lambið mitt hinar færðu ekki frítt)
1. Ég átti að mæta í klarinetttíma nú fyrir sjö mínútum. Ég vaknaði hress og kát um níu leytið í morgun. Hoppaði glaðbeitt framúr rúminu og snæddi morgunverð. Síðan hófst ég handa við að æfa mig ögn fyrir tímann. Klukkan tólf mínútur í ellefu snaraði ég mér í föt, tannburstaði mig og ætlaði að rjúka út - þegar ég mundi. Já, pabbi hafði rænt bílnum (síns eigin) og skroppið á honum til útlanda. Svo ég stóð með lyklana í annarri og ,,úpps" svip. Reyndi að grafa upp númerið hjá klarinett kennaranum mínum (því ég er alltaf að týna símaskránni úr símanum mínum, undarlegur ávani). Þegar ég og já punktur is vorum loksins farin að dansa var klukkan orðin rúmlega ellefu.
Náði í kennarann, sem var afar upptekinn (m.a. við náttfataleit fyrir tónleika) og tímanum því frestað. Úpps.
2. Í fyrradag var ég að trítla heim úr verklegri æfingu. Kvöldið áður hafði ég misst af strætó - svona móment þegar maður sér hann og hleypur í átt til hans en hann brunar engu að síður framhjá, í illmensku sinni, án þess að stoppa. Þá var grenjandi rigning og strætó farinn að ganga einungis á hálftíma fresti. Ansans.
Þetta kvöld var veðrið þó ágætt, tunglið skein á dimmbláum himni. Ég labbaði í átt að skýlinu þegar ég sá strætó koma aðvífandi. Nei. Hingað og ekki lengra, hugsaði ég með mér, og hljóp eins og vindurinn. Ég sló heimsmet í spretthlaupi og náði í skottið á strætó. Móð og másandi settist ég aftast, nokkuð ánægð með sjálfa mig.
Þá leit ég til hliðar á bílastæði skólans. Sá þar rauðan volvo. Ánægjubrosið féll í smástund en breyttist síðan í fliss. Ein og flissandi í strætó ýtti ég á stansrofann og fór út á næstu stoppistöð.
Ég hafði komið á bíl í skólann.
Blogg
Af hverju bloggar maður? Sýniþörf? Tjáningarþörf?
Oft skrifa ég til að hugsa. En hér skrifa ég hvort eð er ekki það sem ég hugsa.
(Eða jújú. Blómkál vissulega bætir. Ekki minnast á brokkólí sem snarbætir allt geð - en er að því leytinu hættulegra en blómkálið að grænu doppurnar eiga það til að festast í tönnunum sem er einstaklega ólekkert.)
Einu sinni var höfuðið mitt eins og rússíbani. Hugsanirnar fóru hring eftir hring og ég vissi ekki hvað sneri upp og hvað sneri niður, þær gerðu mig alveg snarringlaða.
Og þá skrifaði ég.
En nú er meira eins og höfuðið mitt sé hringekja. Hugsanirnar snúast í hringi og ruglast stundum, en eru ekki jafn snarringlandi.
Og þá skrifa ég minna.
Samt veit ég ekki hvað ég vil læra. Samt veit ég ekki hvort það sé góð hugmynd að reyna að klára tónskóla og háskóla í sama mánuðnum. Samt veit ég ekki hvað ég vil verða þegar ég verð stór.
Held ég sé bara happí.
Ég á meira að segja bleik stígvél.