Síðasta helgi
Á föstudaginn fór ég í vísindaferð. Eftir hana fór rafmagnið af hausnum á mér svo heilinn var eitthvað sambandslaus og steingleymdi hve mikið áfengi líkaminn sem hann stjórnar má innbyrða.
Afleiðing þessa voru tíðar ferðir á klósettið, aðallega til að fara á þrjúhundruð trúnóa. Síðan átti ég athyglisvert símtal þar sem ég talaði fjálglega um blett á gólfi baðherbergisins í korter (ég var samt ein um að finnast umræðuefnið spennandi - sem ég skil ekki).
Daginn eftir var rafmagnið komið aftur á hausinn. Líkaminn ákvað þá að fara í heiftarlega fýlu.
Um kvöldmatarleytið tók ég mér pásu frá fósturstellingunni og skrapp útí innkeyrsluna heima hjá mér og hoppaði inní flutningabíl - á rauðum náttbuxum.
Þar ákvað ég að fjárfesta í orgeli.
Já krakkar mínir: orgeli.

Fróðleikur um orgel: Árið 1959 keypti einn af stofnendum Smárakvartettsins það af gömlum manni á Akureyri.
Og hananú.

Þessa dagana glugga ég í
bók sem fjallar um risavaxinn og geðsjúkan fjöldamorðs-piparkökukall á meðan ég japla á sparipiparkökunum sem enn eru til.