<$BlogRSDURL$>
Dvel ég í draumahöll og dagana lofa
mánudagur, júlí 18, 2011
  Jellíbörn

Ég varpaði fram þeirri spurningu um daginn: Hvort sé eðlilegra að borða fyrst hausinn eða fæturna á jellíbörnum. Eftir að hafa leitað á netinu virðist mér að flestir velji að borða hausinn fyrst.

Ég hef ákveðið að skella hér fram heilahríð minni um þetta mikilvæga mál. Fyrst ætla ég að gera ráð fyrir því að ef fólki þykir annar kosturinn betri, t.d. tær betri en haus, eða augu ljúffengari en hælar þá velji það þann líkamspart sem það kann betur að meta til að snæða fyrst. Auðvitað er sjónarmiðið að spara það besta þar til síðast gott og gilt, en ég ætla ekki að fara útí þá sálma hér.

Fyrir þá sem eru haldnir fótablæti (eða jafnvel táblæti) er líklegt að þeim þyki fæturnir mest heillandi hlutinn af jellíbörnum. Ég hef ákveðið að slík blæti séu ekki með öllu (bara tiltölulega) vafasöm þó þetta sé sælgæti sé kennt við börn, því mér finnst jellíbörn frekar líta út eins og litlir feitir kallar, og ég er ekki viss hvort margir eru haldnir fótablæti gagnvart fótum feitra kalla. Þetta gæti útskýrt af hverju flestir borða hausinn fyrst, því höfuð er jafnan talin meira aðlaðandi en fætur. Annað sjónarmið er að ef japlað er á hausnum fyrst mæna engin biðjandi gúmmíaugu á mann lengur, og því auðveldara að borða búk barnsins án samviskubits. Á internet flakki mínu sá ég oft nefnda sem ástæðu fyrir því að borða hausinn fyrst sé til að komast hjá því að hlusta á öskrin í jellíbarninu. Þetta veltir upp þeirri spurningu hvort sumir sem borði jellíbörn fætur fyrst, geri það af sadískum hvötum. Ég myndi til að mynda ekki einu sinni óska mínum versta óvini (sjá síðar þegar ég blogga um lið a)) morði með ostaskera – þar sem byrjað yrði að sneiða af iljunum.
Svo. Mér sýnist flestir velji að borða hausinn fyrst geri það af tillitssemi við gúmmíbörnin og að þeir sem borði fætur fyrst séu annað hvort haldnir fótablæti eða hafi gaman af öskrum og þjáningu jellíbarnanna.

Til að enda þessa færslu á vísindalegum nótum er hér myndband af öskrandi jellíbarni – JÖFNUR.

Ykkur til fróðleiks er óhóflega mikið af ofbeldi gagnvart jellíbörnum til á youtube.
 
mánudagur, júlí 04, 2011
  Þetta er ný bloggfærsla.
Ég hef ígrundað þetta mál vel og vandlega - í allt að tvær og hálfa mínútu. Og held að blogg sé tímabært.

Hér fyrir neðan er skoðanakönnun. Elsku kæru lesendur (lesist mamma) vinsamlegast veljið: a, b eða c.

a) Fantalega illan meðleigjanda.
b) Tæland.
c) Hvort sé eðlilegra að borða fyrst hausinn eða fæturna á jellíbörnum.

Ég mun í kjölfarið vippa fram færslu um vinsælasta valkostinn.
Takk.

PS. Obbosslega er bakgrunnurinn hjá mér ljótur.
 
miðvikudagur, mars 03, 2010
  Pirripúki
Um daginn vildi þannig til að ég og Tóta ákváðum að halda innflutningsteiti undir yfirskriftinni: Hve marga þarf að setja inní stofu til að hita hana.
Að sjálfsögðu vorum við á síðasta snúningi með allan undirbúning svo að rúmum tveimur tímum fyrir teiti þá þeystumst við um matvörubúðina og völdum ýmsa drykki fyrir gestina, þar á meðal áfenga drykki. Við eyddum dágóðum tíma í að vanda valið og skelltum okkur síðan á kassann. Þar spurði afgreiðslustúlkan um skilríki. Hér er sú regla ef að þú ert að kaupa þér eina bjórdós og vinur þinn stendur hjá þér, þá þurfa báðir aðilar að sýna skilríki. Við pössum okkur því báðar á að vera með skilríki því við erum alltaf spurðar. Við réttum fram ökuskírteinin okkar og biðum rólegar eftir því að geta greitt fyrir vörurnar og komið okkur heim í þrif og sturtu (skosk sturta = ekkert vatnsflæði, hrollur).

Hún horfði á okkur til skiptis og spurði síðan hvort við værum með einhver önnur skilríki. Þessi væru ekki gild, þar sem það þyrfti sérstök skilríki gild innan Evrópu. Við tjáðum henni að þetta væru ökuskírteini gild innan Evrópu. En hún hristi höfuðið og sagði að það væri ekki heilmynd á skírteininu og hún gæti ekki tekið þau gild. Hún kallaði þó í yfirkassakonuna og spurði hvort að þau gætu tekið þessi skírteini gild. Sú rétt leit á skírteinin okkar og sagði að það væri ekki heilmynd á þeim og þau því ekki í lagi. Við horfðum á þær tvær steinhissa þar sem höfðum verslað þarna reglulega undanfarna mánuði og sýnt þessi sömu skilríki án þess að hafa lent í vandræðum. Við reyndum að malda í móinn, bentum á að þetta væru gild skírteini innan Evrópu, og að við værum langt yfir áfengisaldri (sem er átján ára). Okkur var vísað frá.

Satt best að segja vorum við örlítið pirraðar þá. Okkur fannst þetta hið ótrúlegasta mál. Við erum 24 og 25 ára. Ökuskírteinin okkar eru ekki leikfangaskírteini fengin úr seríóspakka.
Við ákváðum á endanum að spyrja verslunarstjórann. Ég spyr aldrei nánar útí svona mál. Ég humma bara og játa ef einhver segir að ég megi ekki eitthvað. Já og amen. En mér fannst þetta bara stórundarlegt og vildi fá nánari staðfestingu.
Við náðum tali af ungum manni sem brosti og spurði hvort hann gæti aðstoðað.
Við útskýrðum okkar mál. Hann sagði: Æ, eruð þið ekki með önnur skírteini á ykkur? EU ökuskírteini, breskt ökuskírteini eða vegabréf? En leiðinlegt. Nei.

Ef ég skildi hann rétt, þá til að vera vissar um að fá afgreiðslu á áfengi innan Skotlands þá þurfum við að vísa fram vegabréfi. (Höfum samt aldrei lent í vandræðum annars staðar.)

Við strunsuðum því út og sórum þess heit að versla ekki aftur við þetta pakk.

Tveimur tímum fyrir teiti stóðum við því án viðeigandi drykkjarfanga fyrir veislugesti í ótiltekinni íbúð.
Eftir hraðþrif og lausn á stóra drykkjarfangamálinu fór allt þó vel og teitið heppnaðist ljómandi.

Í ljós kom að 10 manns eru nóg til að hita stofuna. Sérstaklega ef einn gestanna er nógu skarpur til að sjá að það er takki á arninum sem lætur hann HITA!

 
miðvikudagur, febrúar 17, 2010
  Borg hinna mörgu hundaskíta
Ég er hrærð yfir því að heilar 13 manneskjur hafi áhuga á að lesa bloggið mitt og gengið í þar til gerðan fésbókarhóp.

Síðan síðast hefur heilmargt gerst. Enda lifi ég spennuþrungnu lífi.
Fyrir jól vorum ég og meðleigjandinn yfirleitt í góðri sveiflu saman.
Við náðum reyndar ekki saman að innri kjarna persónuleika okkar, en við ræddum oft rigninguna eða snjóinn. Einstaka sinnum brugðum við okkur út fyrir öruggt svæði veðurumræðna og spjölluðum um klassíska tónlist.
Meðleigjandinn minn fyrrverandi er áhugaverð. Hún hefur búið hér í Skotlandi í yfir tíu ár, þar af sirka 9 ár í íbúðinni sem ég bjó í. Já íbúðinni með sundurleitu húsgögnunum, ljótu teppunum. Skrautmunir í íbúðinni voru á borð við bleika kanínubangsann í stofuglugganum ásamt tómu lyktareyðishulstri - báðir hlutir litu út fyrir að hafa staðið í gluggasyllunni frá því blokkin var byggð.
Í íbúðinni var nauðsynlegt að tileinka sér sérstakt lag þegar maður opnaði flestar hurðir því að hurðahúnarnir voru sjaldnast áfastir. Eldavélin leit út fyrir að hafa verið framleidd á tímum risaeðlanna, og virkuðu ekki allar hellurnar. En það er auðvitað ofmetið því maður notar hvort eð er aldrei fjórar hellur í einu.

Skotar nota ekki litla innkaupapoka undir vaskinn sem rusl, heldur stóra tunnu inná miðju eldhúsgólfi með svörtum poka. Það tekur því viku að fylla ferlíkið. Ég gerði ýmsar kannanir á skítaþröskuld meðleigjanda míns. Fyrst fór ég alltaf út með ruslið þegar það var fullt. Síðan ákvað ég að gera tilraunir á því hve lengi það þyrfti að vera fullt til að meðleigjandinn færi út með ruslið. Það var langur tími. Einu sinni var ruslið búið að vera fullt í fjóra daga (og alltaf bara troðið í það ofan á, þannig að lokið nálgaðist loftið smám saman) þegar ég fór með það út. Reyndar kom það fyrir að hún tók ruslapokann úr ruslinu og setti hann á gólfið inni í eldhúsi. Fyrst gerði ég þá ráð fyrir því að hún myndi skottast með hann næst þegar hún ætti leið niður, enda íbúðin á efstu hæð. En þegar ruslið var búið að vera það lengi á gólfinu að ruslafatan sjálf var full aftur þá gaf ég upp von og fór út með ruslið. Ég gerði margar aðrar tilraunir á heimilisþrifum meðleigjandans, eins og t.d. hve grænt niðurfallið í baðvaskinum þyrfti að vera til að hún þrifi hann. Það kom aldrei fyrir. Svo það var ég sem þreif - alltaf! Tja, ég held reyndar að hún hafi sópað eldhúsið einu sinni.
Ljósskermurinn á baðherberginu var áhugaverður og ég horfði oft á hann löngum stundum þegar ég var í sturtu. Á honum var þykkt lag af ryki. Þykkt lag nær ekki að lýsa því hve þykkt það var. Það var nánast heillandi. Í tilefni af heimsókn móðureintaksins þurrkaði ég af skerminum og komst að því mér til undrunar að hann var dökkblár ekki grár. Mér hefur aldrei áður liðið eins og jafn miklum snyrtipinna.

Okkur meðleigjanda kom þó ágætlega saman og einu sinni gaf hún mér meira að segja eplakökusneið. Þetta var ljómandi samband.

Nýja íbúðin hefur marga kosti umfram hina. Meðleigjandinn er skemmtilegri. Húsgögnin fallegri. Teppin eru ný. Eldahúsið ekki uppá marga fiska, en vel brúklegt (fyrir utan suma potta og pönnur en notkun þeirra myndi þýða bráða ryðeitrun). Í svefnherberginu er gardínurúm, sem betur fer, á því er smekklegra mynstur en því gamla og gormarnir stingast ekki jafn harkalega í bakið á manni.
Ókosturinn við íbúðina er að þetta er eldra hús. Það er fallegra á að líta, en svo virðist sem að einangrun hafi ekki verið til í orðaforða Skota þegar þeir byggðu þessi steinklumpahús. Það eru tveir ofnar í húsinu og það dugir varla til nokkurs að setja þá á fullt því hitinn helst ekkert inni í húsinu. Bara búmm. Rokinn út. Það ku vera óhentugt því kynding er dýr.
Eftir að hafa hlerað hvernig fólk hagar sínum málum þá virðist vera kappsmál að hita sem allra minnst. Fólk gortar af því að hita bara einn klukkutíma á dag. Við erum ekki komnar í þann pakkann ennþá, en mögulega sjáum við eftir því þegar við fáum reikninginn – eftir þrjá mánuði.
Nýjasta trikkið sem við pikkuðum upp er hitapoki. Tóta gaf mér fagurbleikan hitapoka, sem ég skírði Hansínu, og síðan þá höfum við Hansína verið óaðskiljanlegar. Ég held ég verði hreinlega að hlaða myndavélina mína til að skella inn mynd af henni.

En þrátt fyrir kyndingabasl og slaka potta þá er eitt sem bætir þetta allt upp: Gerviarinninn.

Hvers meira getur maður eiginlega óskað sér?
 
mánudagur, október 12, 2009
 
Það er kjánalega mikið af fótbrotnu fólki hér.
 
þriðjudagur, október 06, 2009
  Gardínurúm og steypa
Jæja.

Skólinn er byrjaður. Ég læri um hitt og þetta, þar á meðal steypu. Það kann að hljóma áhugavert. En ég skal leiðrétta þann algenga misskilning - efnafræði steypu er ekki nærri því jafn spennandi og heillandi og hún hljómar.

Um daginn fór ég í inntökupróf fyrir sinfóníuhljómsveit skólans. Þrátt fyrir að hafa fundist ég ekki hafa staðið mig sérlega vel þá komst ég inn, mér til mikillar ánægju. Takiði eftir hér til hægri á myndinni getiði einmitt séð nóturnar mínar á skrifborðsstól - statífinu mínu.



Eins og glöggir lesendur sjá er rúm á þessari mynd. Gardínurúmið.



Ég kann annars ágætlega við herbergið mitt. Ennþá betur eftir að ég komst að því hvernig á að kveikja á ofninum. Á meðan fólk röltir hér um göturnar á peysunni er ég búin að draga fram úlpuna mína, húfu og vettlinga. Ég hef grun um að ég sé kuldaskræfa.

Ég er strax búin að kaupa þónokkrar bækur. Hvernig á maður að standast fornbókasölur og útsölumarkaði á bókasöfnum? Ég sem kom með 20 kíló og má bara taka 20 kíló með mér til baka. Það verður erfitt að pakka í vor.
 
sunnudagur, september 27, 2009
  It's my party and I'll cry if I want to
Í dag á ég afmæli. Ég er orðin töttuguogfemm ára og á að heita fullorðin.

Í dag bý ég í Skotlandi og hef gert í næstum viku. Það er áhugavert að vera einn í útlandi á afmælisdaginn sinn. Ég hélt að mér væri næstum sama. En samt var ég hálf einmana í dag. Fannst allir vera í órafjarlægð. Svo ég sat og horfði á ameríska sjónvarpsþætti og fann pínu til með sjálfri mér.

En síðan hunskaðist af gardínurúminu mínu og fór út. Það var fallegt veður. Alveg skýjað, en hlýtt. Og laufblöðin fuku af trjánum. Gul og rauð og brún. Flögruðu um og féllu til jarðar. Ég labbaði í gegnum allar þær laufblaðahrúgur sem ég fann og laufblöðin þyrluðust um í kringum mig.

Þegar ég átti heima í Bandaríkjunum átti ég ósýnilega vini. Það voru laufblöðin.
Mér þykja laufblöð vinaleg.

Eftir að ég var búin að leika við laufin fór ég til íslenskra hjóna sem ég kynntist í gegnum vinkonu móður minnar. Þegar ég sagði þeim fyrr í vikunni að ég ætti afmæli í dag voru þau svo almennileg að þau buðu mér í mat og köku.

Það er ekki alslæmt að eiga afmæli í útlöndum.
En fullorðin? Veit ekki með það.
 
laugardagur, september 26, 2009
  Sundurlaus frásögn um skúrkinn Bond og ölvaða unglinga
Klukkutíma áður en ég átti að flytja af Íslandi (með millilendingu í Danmörku) fékk ég tölvupóst.
Í þeim pósti tjáði frk. Bond mér að hún gæti ekki leigt mér herbergi sem hún hafði lofað mér. Ég brást við af sérstakri ró og yfirvegun (fór að hágráta og hringdi í pabba) og kláraði því næst að pakka (lokaði töskunni án þess að athuga hvort ég væri búin að setja allt ofan í).
Næstu dagar fóru í að hafa uppi á hverjum einasta Íslendingi í Aberdeen sem brugðust við á eins og þjálfaður flokkur íbúðaleitenda. Íbúðaauglýsingar flugu um í formi tölvupósta á þvílíkum hraða, netið hafði ekki við. Ég eyddi tímanum í að vafra um á leigusíðum og að borða kandífloss í Tívolíi. Kandíflossin í Danmörku eru þrisvar sinnum stærri en þessi heima! Það gladdi mig. Íbúðasíðurnar glöddu mig ekki.

Eftir tívolítæki, Strikið og pikknikk ákvað ég að það væri kominn tími til að hætta þessu hangsi svo ég skellti mér út á flugvöll. Ég var voða glöð að sjá að ég var bara í sætaröð ellefu, hugsaði að það væri ágætt að vera framarlega.
Sætaröð ellefu var næst-öftust í flugvélinni. Flugvélin sem flaug til Aberdeen var svo agnarsmá að bakpokinn minn komst ekki fyrir í farangurshólfið fyrir ofan mig. Þegar vélin setti dekkin niður var ég viss um að hún myndi detta í sundur, hún virtist svo lítil og brothætt og það hristist allt. Þegar ég kom útúr þessari ponsulitlu vél labbaði ég inn á minnsta flugvöll sem ég hef séð. Þremur skrefum frá vélinni var vegabréfaeftirlit, og beint fyrir aftan það var farangursbeltið. Ég gekk samtals fimm skref frá flugvélinni og alveg út í leigubíl.

Úti var allt voða grænt og skoskt. Ég veit ekki nákvæmlega hver lýsingin á skosku er. En það leit allt klárlega mjög skoskt út. Leigubílstjórinn skutlaði mér á hótel. Um leið og ég kom á hótelið fann ég mér internet sem kostaði marga skildinga, en þar sem forgangsröðunin er: súrefni,internet, matur þá var það engin spurning. Þegar ég var komin á netið leið mér betur. Ég þekki nefnilega internetið, það er vinur minn. Þannig ég sat á rúminu og klappaði tölvunni minni góðlátlega þar til að frönsk stúlka kom inní herbergið mitt og tjáði mér að hún væri herbergisfélagi minn. Þegar hér var komið var farið að dimma úti og ég hafði ekki ennþá þorað aftur út. Þeirri frönsku þótti ég einstaklega óspennandi þar til ég fór að tala um mat og þá vildi hún ólm koma með mér útí búð.

Hún kynnti mig fyrir skoskri og þýskri stúlku sem voru einnig að fara að læra í háskólanum. Þær fóru allar að hlæja og benda á mig þegar þær komust að því að ég væri 25 ára. Ég var sú elsta sem þær höfðu séð lengi.
Á meðan ég nærði mig fór sú franska að hitta stöllurnar tvær aftur og bauð mér að kíkja til þeirra eftir matinn. Þar sem ég var búin að uppfylla nauðsynjaskammtinn minn (súrefni, internet, mat - í þessari röð) ákvað ég að hætta mér út.

Þegar ég gekk útúr herberginu mínu sá ég sauðdrukkna unglinga velta um í neon litum fötum. Ég skáskaut mér framhjá þeim og hóf leitina að stúlkunum þremur. En ég mundi ekki herbergisnúmerið. Bankaði á þá hurð sem ég hélt ég hefði staðið við fyrr um kvöldið, þá tók á móti mér drukkinn drengur. Ég prófaði nokkrar aðrar og fann bara mis ölvuð ungmenni. Svo ég ákvað að rölta til baka. Er ég gekk fram hjá sérlega partítrylltu herbergi fann ég hvernig kippt var í handlegginn á mér og ég dregin inn í herbergið. Loftið var áfengismettað. Ung stúlka horfði á mig og hrópaði uppyfir sig af gleði að ég væri velkomin í partíið hennar. Og bauð mér ýmsa áfenga drykki. Hún faðmaði mig og sagði að ég væri frábær. Síðan valt hún um herbergið. Ég stóð smástund eins og illa gerður hlutur og var byrjuð að mjaka mér vandræðalega útúr herberginu þegar þrjár stelpur toguðu í mig og buðu mér að setjast. Þær voru öllu rólegri en hin ungmennin og ekki klædd í neinn neon klæðnað. Eftir smá spjall af okkar hálfu og drykkjuleg dólgslæti af hálfu hinna í partíinu kom íturvaxinn skoskur maður sem reyndi að sundra partíinu og lét ekki freistast þegar ungmennin buðu honum vodka.

Partíið færði sig útá gangi og niður í anddyri og ég flaut með. Ég stóð þar og spjallaði við stelpurnar þrjár sem höfðu setið með mér á rúminu. Flest ungmennanna voru farin útaf hótelinu. Við spjölluðum í rólegheitum þegar að stelpan sem hafði faðmað mig fyrr um kvöldið kom til okkar. Hún varð rosalega glöð að sjá okkur og sagði mér að ég ætti að ákveða hvort við yrðum öll á hótelinu áfram að drekka eða fara á bar. Með sérlegum angistarsvip tókst mér að koma mér hjá því að taka ákvörðun um það en endaði allt í einu með henni og tveimur stúlkum á leið á bar þar rétt hjá. Það væri víst málið. Eftir að hafa verið þar í 2 og hálfa mínútu ákvað sú drukkna að nú væri kominn tími til að fara í Primark. Af hverju sú ákvörðun var tekin veit ég ekki enn, en ég ákvað að rölta með. Þegar sú glaðlega komst að því að ég væri 25 ára varð hún ennþá kátari. Hún sagðist elska mig. Hún væri nefnilega 22 og orðin dauðþreytt á öllum þessum átján ára börnum. Síðan tjáði hún sig heillengi um að hún væri bláedrú. Hún sagði a.m.k. þremur manneskjum að hún elskaði þær á korteri. Eftir labb um hálfa borgina komum við að öðrum skemmtistað (við fundum ekki Primark). Þar var rukkað inn og staðurinn var fullur af fullum unglingum. Ég og ein rólega stelpan ákváðum að þetta væri ekki okkar vettvangur svo við röltum til baka.

Þetta var mánudagur. Samkvæmt unglingabörnunum þá eru allir dagar partídagar svo maður sá drukkna unglinga á hverju einasta kvöldi rúlla um hótelið.
Ég ákvað eftir það að sitja bara heima og knúsa internetið frekar.

Daginn eftir að ég kom fór ég að skoða íbúð. Sú íbúð er rétt hjá skólanum og á nokkuð viðráðanlegu verði. Ég fann íbúðina á efstu hæð í blokk. Ekki sú fallegasta. Ekki sú snyrtilegasta. Austurísk kona opnaði fyrir mér. Íbúðin var teppalögð í gegn (nema blessunarlega ekki inni á baði eða eldhúsi) og húsgögnin fengin héðan og þaðan. Þegar ég kom inní herbergið mitt tvísteig ég smá. Á gólfinu var dökkgrænt teppi, veggirnir gulir og ljósgrænar gardínur. Húsgögnin virtust öll vera úr rúmfatalagernum fyrir svona 30 árum og rúmið var ekki eins og venjulegt rúm. Heldur var það klætt með ljótasta gardínumynsturs efni sem ég hef séð. Þegar ég lagðist á það mátti sums staðar finna fyrir gormum. Ég var hálf efins.

Þannig þegar landlady konan og sú austuríska spurðu mig hvað ég vildi þá sagði ég að sjálfsögðu. Já ég flyt inn!

Svo núna er þetta heimilið mitt.
 
föstudagur, febrúar 20, 2009
 
Bloggari þessi er upptekinn á fésbók eða að hrista fiskimjöl. Reynið aftur síðar.
 
þriðjudagur, desember 23, 2008
  Jól

Elsku þú.

Gleðileg jól!
Megirðu borða yfir þig af reyktu kjöti, laufabrauði og smákökum.

Jólaknús,
Ég.
 
þriðjudagur, desember 09, 2008
 


Tannkremið leysti vandann.
 
föstudagur, desember 05, 2008
 
Ég er svo pirruð! Ég þoli ekki labbdverginn*!

*Labbdvergur=snarillur dvergur sem skemmir allar niðurstöður á labbi** að öllum líkindum bara sér til dundurs.
**labb=tilraunastofa
 
miðvikudagur, nóvember 26, 2008
  spóla er spóla er spóla
Pabbi skilaði spólu.

Ég skilaði líka spólu í gær. Á Snæland.
Enginn spólandi vitlaus yfir því.
 
þriðjudagur, október 28, 2008
  Górilluvarnir
Mér finnst mjög skemmtilegt að einhver hafi rambað inn á bloggið mitt með leitarorðunum Túrilla Blúmenberg á gúgúl.
 
Mestmegnis bull, en ef vel er gáð, hver veit? Kannski að þið rekist á eitthvað af viti...

Úmpalúmpar

Vilborg Sigga Sara Salóme Pabbi Margrét Mamma Lísa Líney Kristjana Kristín Katla Íris Hugi Hjálmar Héðinn Heiða Guðný Eyrún Björgvin Bjarnheiður Berglind Árni Bjöss Arngrímur
Úmpalúmpaleikföng

Stærðfræðiheimur Stigull Rithringurinn Mæspeisið Margt og merkilegt Ljóð.is Hvarf Hotmeil Háskólinn Dindill

Powered by Blogger



Fornrit

09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 07/01/2011 - 08/01/2011 /