<$BlogRSDURL$>
Dvel ég í draumahöll og dagana lofa
sunnudagur, febrúar 29, 2004
 
Þar sem ég hef ekkert að segja, nema þá hugsanlega að vorkenna fætinum mínum (hver fann upp skó með pinnahælum???) þá ætla ég að þreyta allan þann gríðarlega fjölda sem leggur leið sína hér inn á síðuna mína með pistli um hin duldu áhrif enskunnar.

Oft heyrir maður minnst á áhrif enskunnar á íslensku. Í því samhengi eru tökuorð og slettur oft nefnd sem dæmi. Jafnvel minnst á að of langt sé gengið þegar farið er að setja slík orð í íslenskar orðabækurþ Þetta eru þó þau áhrif sem frekar litlar áhyggjur þarf að hafa af. Hér á landi fyrir þó nokkrum áratugum þótti danska tungan vera æðri öðrum, danskar slettur íðilfagrar, og fólk ekki maður með mönnum ef það gat ekki slegið um sig með vel völdum orðum á dönsku. Þær eru ekki mjög ríkjandi enn. Auðvitað hafa þó nokkrar aðlagast íslenskri tungu. En slettur deyja út. Það er því tiltölulega rökrétt að álykta að enskar slettur deyi út. Það er áberandi að þegar fólk segir, sjitt og fokk, að það er að sletta. Hins vegar eru ensk áhrif farin að móta íslenska setningafræði. Til að mynda er algengt að fólk segi: eigðu góðan dag. Hver hefur ekki heyrt þetta? Þetta er bein þýðing á: have a nice day. Eða einhverju ámóta. Af hverju ekki bara að segja hafðu það gott í dag, eða eitthvað skemmtilega íslenskt. Þetta eru samt mjög lúmsk áhrif þar sem öll orðin í setningunni voru íslensk þannig að er nokkuð athugavert við þetta? Annað dæmi sem mér var bent á í gær og sló mig nokkuð var notkun eignarfornafna. Til að mynda: þetta er minn stóll. Þetta er nú þinn allra besti vinur. Sér nokkur eitthvað athugavert við þetta? Ef eitthvað í þessa veru er sagt við mig hringir engin viðvörunarbjalla í hausnum á mér (ég er með rosalega pirrandi málfræðibjöllu í eyranu, leiðrétti líka stafsetningarvillur annarra í höfðinu. Ansi þreytandi, en getur maður ekki kennt heilaþvætti í barnæsku um allt slíkt?). Hin íslenska orðaröð er þannig að eignarfornafnið á að koma á eftir eigninni. Þetta er stóllinn minn. Þetta er allra besti vinur þinn. Áhrif úr ensku, tvímælalaust: this is my chair, this your best friend. Í enskunni er áherslan á þinn og minn, en í íslensku er áherslan meira á hlutnum. Þetta eru bara þau tvö dæmi sem ég man eftir án þess að hafa markvisst reynt að komast að því hve víðfeðm þessi áhrif í raun eru. Þetta er mjög áhugavert. Að mínu mati. En ég er nottla svo skrýtin. Það hefur löngum verið vitað.

Ef einhver dó úr leiðindum við lesturinn er sá hinn sami beðinn um að rita um það hér fyrir neðan í röflkerfinu. (umsögnin verður þá tekin til umhugsunar, og ef talin réttmæt mun ég aldrei reyna að gáfumennast meira og halda bara áfram með bullið). En fyrst ég er á annað borð að tala um ensku og íslensku, hefur einhver fundið gott nafn yfir comment sem samsvarar notkun þess á bloggsíðum almúgans? Ég bara spyr, í orðabókinni er þýðingin á comment: umsögn, athugasemd, umtal. En ekkert þessara orða henta vel, finnst mér. Athugasemd lætur nokkuð nærri, en getur maður sagt: látið þá vita í athugasemdarkassanum? Jú, reyndar er það hægt, þó það sé frekar óþjált. Umtalskerfi. Hmmm. Já. Kannski. En þreyta er farin að hrjá mig enda búin að sitja löngum fyrir framan tölvuskjá að einhverfast. Þannig tannbursti hér kem ég.
 
föstudagur, febrúar 27, 2004
 
ferskja
 
fimmtudagur, febrúar 26, 2004
 
Gettu betur er búið. Spennandi viðureign og liðið okkar stóð sig mjög vel. Þó skemmtilegra hefði verið að steypa þessum MR-ingum af stóli. En þar sem ég er næstum ennþá með í maganum eftir að hafa setið í áhorfendasal áðan læt ég þetta duga um það.

Kom mér til hugar um daginn að koma með skemmtilega nýjung hér á þessa netdagbók. Þar sem að ég er fræg fyrir hæfni mína í eldamennsku finnst mér það vera borgaraleg skylda mín að deila með ykkur nokkrum af þeim réttum sem að ég get hrist leikandi létt úr annarri ermi.

Gæti ég jafnvel kallað þennan hluta skrifa minna því frumlega og skemmtilega nafni: Eldað með Ástu!

Þannig að gjörðiði svo vel;

Fyrsti rétturinn er þeim sem umgengist hafa mig vel kunnur. Kynntist ég þessu fæði í Ameríkunni og sló það strax í gegn. Strax á unga aldri sýndi ég áhuga fyrir því að læra að útbúa þennan rétt. Hann gengur við mörg tækifæri, hvort sem er fyrir einn eða fleiri, sem snarl eða aðalrétt. Bara hvenær sem er. Nú erum við að sjálfsögðu að tala um hinar frægu beanutbutter and jelly- samlokur. Eða brauð með hnetusmjöri og sultu.
Bæði er hægt að njóta þeirra ristaðra eður ei. Mörgum þykja samlokurnar þó betri ristaðar því þá bráðnar hnetusmjörið sem gefur skemmtilega áferð og bragð. Ekki eru þó notaðar sömu aðferðir við smurningu hinna ristuðu brauðsneiða og hinna óristuðu. Verða þær nú raktar hér:
Óristuð hnetumjörs- og sultubrauðsneið. Hentugasta aðferðin er að taka tvær sneiðar í sömu stærð. Ákaflega leiðinlegt er ef brauðsneiðarnar eru ekki jafnstórar því þá geta fingur rekist í viðbitið, sem síðan geta rekist í föt og eins og allir sjá getur það verið ansi óhentugt. En þegar hinar réttu sneiðar eru fundnar þarf að taka fram sultukrukku (helst rifsberja), og hnetusmjör. Á mínu heimili er að öllu jöfnu keypt hnetusmjörið hans Péturs Pans, er það ágætis tegund en lítið er reyndar um fjölbreyttar tegundir hér á fróni þannig að einfaldar það val margra sem annars gætu hugsanlega staðið fyrir framan hnetusmjörsrekkann í búðum tímunum saman. Þegar búið er að finna til efnin er gott að huga að áhöldum. Taka skal fram hníf og skeið (eða tvo hnífa). Fyrst er önnur sneiðin smurð með hnetusmjöri, vanda skal til verka og á smjörið að ná út á alla kanta. Næst er seinni sneiðin smurð með sulti, sömu aðferða skal beitt og er þetta enginn tími til fljótræðis heldur skal taka hlutunum með ró til að ná sem bestum árangri. Því næst skal setja sneiðarnar saman þannig að hliðarnar með álegginu lendi saman. Taka skal fram hníf og skera samlokuna hornanna á milli þannig að myndist tveir þríhyrningar. Þetta er mikilvægur hluti af þessu ferli og alls ekki skal skera sneiðina á reglubundinn hátt þannig að tveir ferhyrningar myndist enda dregur það úr bragði og upplifuninni. Ef hins vegar neytandi vill ekki borða heilar tvær sneiðar er hægt að nota sömu aðferð og áður var lýst, en getur það endað með ósköpum því ef ein sneið er brotin saman eru helmingarnir ekki jafn stórir. Hægt er því að nota þá aðferð sem fljótlega verður lýst; ristað brauðs aðferðina.
Þegar smyrja skal ristaða hnetusmjörs- og sultu brauðsneið er ekki hægt að útbúa hana á samlokuforminu án þess að það dragi algjörlega úr öllum bragðsérkennum. Verður því að leitast við að nota aðrar aðferðir, þær eru þó mun vandasamari og hér þarf hver og einn að gæta ýtrustu varfærni og gæta að einbeitni. Nú þarf ekki að velja tvær sneiðar heldur einungis eina. Taka skal sneiðina og setja hana í brauðristina (smá innskot, orðið ristavél er ekki til. Annað hvort setur maður brauð í ristina, eða í brauðristina). Bíða þarf þá, yfirleitt eru þessi tæki sjálfvirk þannig að þegar brauðið er tilbúið hoppar það sjálfkrafa upp. Gæta skal þó varkárni því brunnið brauð er vond vara. Því næst skal smyrja brauðsneiðina vandlega með hnetusmjöri, fylla vel út í alla kanta. Þá kemur að snúna partinum. Taka skal sultu úr krukkunni með hníf (öðrum en notaður var til að smyrja) setja sultuna ofan á hnetusmjörslagið. Því næst skal taka fram skeið og dreifa varlega yfir brauðsneiðina. Helst skal ekki nota hnífinn til þessa verka því yfirleitt var ekki næg sulta sett á brauðið og þarf því að ná í meiri. Algjörlega ótækt væri því að nota hnífinn því þá kæmi hnetsmjör í sultukrukkuna. En dreifa verður sultunni mjög jafnt og ekki gott að hafa þykkar sultuklessur sums staðar og nær ekkert annars staðar. Þetta þrep getur því verið tímafrekt, en launin sem einstaklingurinn fær eru nær óborganleg.

Ég vona að útlisting mín gagnist ykkur og leiði jafnvel í ljós fyrir ykkur að smurning hnetubrauðssamloka er ekki á hvers manns færi. Nei aldeilis ekki. Það er list.
 
miðvikudagur, febrúar 25, 2004
 
Áðan fékk ég hringingu frá áhyggjufullri móður.
Móðir: ertu á æfingu?
Dóttir: neei ( móðirin verður óróleg á málrómi og hissa)
Móðir: hvar ertu þá?
Dóttir: (hissa á skyndilegum áhuga móður á staðsetningu dóttur) Niðrí tónskóla, það var bara misskilningur með þessa æfingu..
Móðir: Jaá. Það komu strákar að spyrja eftir þér. (ásökunartónn í röddinni).
Dóttir: Ha? nú hverjir?
Móðir: Veit ekki, þeir voru mjög skrýtnir.
Dóttir: Aaa (kominn örlítill skilningur í röddina), þetta voru örugglega þeir sem ég var að æfa jújitsú með, þeir voru stórskrýtnir. Vilborg þekkir þá ennþá því hún er enn að æfa og þess vegna rekst ég stundum á þá ef þeir eru í slagtogi með Vilborgu... Hvernig litu þeir annars út?
Þá kemur skýringin. Einn þeirra var snoðaður með mikið rautt skegg (og örugglega ekki jakkaftaklæddur..), einn með brjálað mikið hár, hinn var bara svona venjulegur (þó með skegghýjung) hann hringdi dyrabjöllunni. Móðir mín var farin að hafa alvörunni áhyggjur af því að hugsanlega væri einkadóttirin farin í eitthvert rugl, eiturlyf og ég veit ekki hvað. (sem er rökrétt niðurstaða ef ég þekki fólk sem er snoðklippt?). Eftir að hafa róað móðurina að ég væri ekki að lifa tvöföldu lífi sem nörd og síðan eiturlyfjasjúklingur þá hringdi ég í þann sem ég hélt að hefði staðið að þessari heimsókn (manneskja sem ég hef alveg tvisvar hitt síðan ég hætti að æfa, sko þessi með klikkaða hárið). Viðurkenndi pilturinn hafa verið þar ásamt tveimur öðrum drengjum (sem ég víst þekki ekki neitt) og þeir hafi bara ætlað að kíkja í heimsókn.
 
þriðjudagur, febrúar 24, 2004
 
banani
 
 
Ástandið er orðið slæmt þegar maður er farinn að standa sig að því að roðna jafnvel í draumi. Ég man bara að ég var einhvers staðar í draumi að tala við fólk og ég roðnaði, réttara sagt stuttu eftir samtal við áðurnefnt, en þó ónefnt, fólk leit ég í spegil og var með skringilegt roðn alla vega á annarri kinninni.
Samt var ég frekar ánægð með nokkurn veginn roðn-lausan nemendakennslu tíma í spænsku. Fann reyndar flóðflæði til höfuðs aukast þegar komið var að mér að tala gáfulega um glósublaðið sem við höfðum útbúið. En síðan lagaðist það. Ég var svo hissa. Kannski að tómatatíð minni sé nú lokið? Ohh, ég sem hafði nýverið ákveðið að sækja um starf Tomma tómats, sem nýr og erfðabættur tómatur.
Yngsti bróðir minn rifti í gær samningi (mútum) við móður mína í gær. Þessi samningur var þess hljóðandi að hann lofaði að ljúka þessari önn forskólans og síðan væri honum frjálst að hætta í tónskóla, að launum fékk hann tölvuleik. Nú hefur hann rift samningnum (eftir að mamma komst að því að hann hafði skrópað síðustu tvo tíma). Var drengnum gert það að fara í eigin persónu og útskýra fyrir forskólakennaranum ástæðuna fyrir brottfalli hans og fleiri viðurlög vegna þessa samningsbrots. Mér fannst þetta alls ekki nógu gott. Mig langaði svo til þess að hann færi að læra á eitthvert hljóðfæri (sem að ég mundi taka samviskusamlega að mér að misþyrma..), af hverju gat hann ekki farið að læra á selló eða eitthvað? Þótti mér þó undarlegt að hann skyldi hætta því í raun hafði hann mun meiri áhuga en t.d. hinn bróðir minn (sem enn er í námi). Æfði hann sig stundum meira en ég og var þegar búinn að semja sitt eigið lag á blokkflautuna. En það hefur reyndar löngum verið vitað að hann litli bróðir minn er ansi sérvitur stundum og vegir hans eru sko órannsakanlegir!
Það eru lagningardagar núna í MH, það er ansi skemmtilegt. Ætla að mæta á eitthvað gríðarlega gáfulegt á morgun (ekki samt stærðfræðimyndina hjá Þórarni, ég er nú ekki orðin svo geðveik!). En fyrst við erum á annað borð farin að tala um stærðfræði þá er hann Þórarinn soldið skondinn stundum. Var ég í stærðfræðitíma áðan og var hann kominn með gríðarlegt plan að skemmtilegu dæmi, að reikna út hve margar krónur kæmust fyrir í einu herbergi. Var þetta eitthvað tengt honum Jóakim aðalönd og hans peningaherbergi (augljóslega á að snúa því upp í stærðfræðidæmi!). Þetta svar kom í beinu framhaldi af svari hans við spurningu minni hvort hann væri búinn að fara yfir prófið.. að ég skuli ekki hafa séð fyrir mér tengsl Jóakims við stærðfræðiprófið mitt áður skil ég ekki, eins augljóst og það er.
 
sunnudagur, febrúar 22, 2004
 
Ég var að velta því fyrir mér fyrr í dag hve undarlegt það væri ef ég væri hluti af skáldsögu. Þar sem ég væri bara aukapersóna í sögu um einhvern sem ég rekst óvart á á Laugaveginum. Að allt mitt líf sé undirbúningur fyrir eitt augnablik. Það eina sem yrði skjalfest af mínu ímyndaða lífi væri þetta eina augnablik sem væri engan veginn lýsandi fyrir mig. Gæti þessi mikilvæga stund verið á þessa leið:

Hannes gekk niður Laugaveginn í þungum þönkum. Af hverju þurfti hann að vera rekinn í dag af öllum dögum. Þvílík mannvonska af hálfu yfirmanna hans að reka hann á sínum eigin afmælisdegi. "Til hamingju með afmælið Hannes, já og meðan ég man þá ertu rekinn".
Hannes andvarpar þegar hann gengur fram hjá skartgripaversluninni, nú er það ekki lengur til í dæminu að hann gefi konu sinni eyrnalokkana sem hún hafði augastað á, en hún á einmitt afmæli deginum á eftir hans eigin afmæli. Samt eru þau ekki í sama stjörnumerki, lukkunarsamlega fyrir Hannes, því Hildur hefði aldrei tekið í mál að giftast honum ef þau væru í sama merki. Hún var svo andlega sinnuð og hafði tröllatrú á að gangur himintunglanna réði miklu í lífi hennar. Hannes var djúpt sokkinn í þessar hugrenningar þegar dökkhærð, ung stúlka gekk til móts við hann með ís í annarri hendi. Hannes hrökk upp úr hugsunum sínum þegar stúlkan hrasaði um gangstéttarhellu og ísinn flaug og lenti beint á frakka Hannesar. "Ó, fyrirgefðu, ég var bara svo annars hugar að ég leit ekki niður fyrir mig, úff, ég vona að þér þyki vanilluís góður þar sem þú ert eiginlega orðinn vanilluíshjúpaður...." Hannes andvarpar enn aftur, alveg eftir honum að fá ís yfir sig allan og lenda þar að auki á málóðri manneskju. "Nei, nei, þetta er allt í lagi". Stúlkan beit sig í vörina "allt í lagi, en viltu ekki fá tissjú?" sagði hún og dró upp þvældan tissjúpakka úr hægri vasa. "Nei takk, þetta er fínt" sagði Hannes og hraðaði sér heim á leið.

Og þetta væri allt og sumt. Leikferli mínum sem aukapersónu í þessari sögu væri lokið. Ég hefði gengið í skóla, stundað íþróttir, lært á hljóðfæri og allt þetta fyrir þetta. Og hvað svo? Mundi ég halda áfram að lifa óafvitandi að mínu hlutverki væri í raun lokið, eða mundi ég einfaldlega gufa upp? Hugsanlega væri þó til endurvinnslustöð fyrir notaðar aukapersónur og mér gæti jafnvel brugðið fyrir sem aukapersónu í næstu bók Arnalds Indriða...
En vaknar þá ekki líka ein spurning; hver eruð þið þá? Aukapersónur í lífi aukapersónu?
 
 
ananas
 
laugardagur, febrúar 21, 2004
 
Dvel ég í draumahöll
og dagana lofa
litlar mýs um löndin öll
liggja nú og sofa
sígur ró á djúp og dal
dýr til hvílu ganga
einnig sofna skolli skal
með skottið undir vanga

ég er svo þreytt.
fór ég á árshátíð tónskólanna í gærkveldi og var það hin prýðilegasta skemmtun.
mætti síðan í píanótíma og klarinett tíma í morgun. skundaði á málþingið um hvert tónlistarmenntun á 21. öld stefnir. það var mjög áhugavert á að hlýða. mundi ég jafnvel segja eitthvað gáfulegt um það ef gáfuð væri. en nú er mál til komið að fara að sofa, því ég þarf að vakna snemma til að læra stærðfræði fyrir hið illræmda stærðfræðipróf í stæ703 og jafnvel taka mig á og æfa nokkra tónstiga og jafnvel verkin sem ég er að spila.
ég var að hugsa um að það í morgun hve mikið ég vorkenni píanókennaranum mínum að þurfa að kenna mér. því að ég æfi mig alltof sjaldan. því ef ég æfði mig gæti ég jafnvel náð einhverri smá meiri færni. hugsanlega mögulega. ég held að ég gæti ekki höndlað að vera tónlistarkennari. að þurfa að hlusta á nemendur sem æfa sig aldrei. auðvitað er það samt örugglega mjög gefandi að kenna nemendum sem æfa sig og ná árangri og ég tala nú ekki um ef þeir eru pínu músíkalskir. en var ég í hóptíma í klarinettinu í morgun og við spiluðum skala hvert fyrir annað (til að fá okkur jafnvel til að æfa okkur meira því að það er ákveðið spark í rassinn ef maður þarf að spila illa fyrir framan fleiri en kennarann sinn) og vorum við þrjú í dag. eiginlega ekkert okkar kunni tónstiga neitt frábærlega vel og það er bara hræðilega leiðinlegt að hlusta á aðra spila tónstiga sem þeir kunna ekki (þar sem ég er ekki undanskilin). þannig að ég veit ekki hvort ég mundi nenna að hlusta á börn spila skala á hverjum degi. þar fyrir utan segir reyndar hún móðir mín að mig skorti nú ef til vill ögn þolinmæði og umburðarlyndi til að kenna (en held hún segi það kannski vegna þess að ég hjálpa henni stundum með tónfræði og tónheyrn og á það til að hlæja að henni, held að það eigi ekki að vera góð kennsluaðferð...). ekki það að ég stefni á tónlistina sem framtíðarstarf, er bara eitthvað svo áttavillt þar sem útskrift úr menntaskóla nálgast óðfluga og framtíðin ekki alveg ráðin þó stefnt sé á háskólanám. í einhverju óráðnu fagi. en já er farin að svífa inn í draumalandið áður en ég fer að röfla enn meira.
 
fimmtudagur, febrúar 19, 2004
 
cute but psycho
you are the cute but psycho happy bunny. You
adorable, but a little out there. It's alright,
you might not have it all, but there are worse


which happy bunny are you?
brought to you by Quizilla

Ég er algjör sauður! Fyrir stuttu var dyrabjöllunni hringt, þar kom einhver piltur að ég held og lét yngri bróður minn fá lyklana mína. Ég hafði gleymt þeim í skráargatinu!

Í gær sá ég í blaðinu Dale Carnegie námskeið fyrir unglinga, þar sem þeir eiga að læra að hafa betra sjálfstraust og ganga betur í skóla eða eitthvað slíkt. Það sem mér þótti skondið var að kvöldið áður hafði ég verið að glugga í bók eftir hann Dale. Sú bók er frá 1936 og hafði ég keypt hana í fornbókasölu einhvern tímann í fyrndinni. Hafði ég síðan gripið í hana fyrir stuttu því ég hafði ekki lesið mikið í henni en titill bókarinnar er: vinsældir og áhrif. Enda veitir nú ekki af sko! En innihald bókarinnar er; það, hvernig menn geta eignast vini og haft áhrif.
Hún er nokkuð skondin: Þú hefur nú lesið þessa bók nógu lengi. Lokaðu henni, berðu öskuna úr pípunni þinni og farðu að framkvæma þessar kenningar um viðurkenningu á öðrum - beittu þeim undir eins við það fólk, sem þjer er nánast - og sjáðu hve áhrifin verða undursamleg.
Þar stendur líka: Sókrates var afbragðsmaður, þó að hann gengi berfættur og giftist nítján ára stúlku, þegar hann var fertugur og sköllóttur. Hann gerði það. sem aðeins hefur hepnast örfáum mönnum sögunnar: hann gerbreytti hugsunarhætti manna. Og nú, tuttugu og þremur öldum eftir dauða sinn, er hann í heiðri hafður sem einhver mesti vitringur, sem nokkurntíma hefur með sannfæringarkrafti sínum haft áhrif á þennan sínöldrandi heim.
Aðferð hans? Sagði hann fólki, að það hefði rangt fyrir sjer? Ó-nei, það gerði Sókrates ekki. Hann var alt of ísmeygilegur til þess. Aðferð hans, sem nú er við hann kend, var öll í því fólgin, að fá menn til þess að svara sjer játandi. Hann lagði fyrir andstæðinga sína spurningar sem þeir komust ekki hjá að játa. Hann hjelt áfram að spyrja, þangað til að það rann uppfyrir andstæðingnum ósjálfrátt, að hann var að fallast á þá niðurstöðu, sem hann mótmælti harðlega andránni áður.

Þetta er stórfín bók, ég held að eftir lesturinn eigi ég eftir að verða alveg ýkt vinsæl. Alveg viss um það. Þetta eru reyndar bara ágætis ráð hjá kallinum, og gilda enn í dag, þannig að mannleg hegðun hefur líklega ekki breyst mikið á síðastliðnum 70 árum. En eitt af ráðum hans til að afla sér vinsælda var að leggja nöfn fólks á minnið; þar sem nafnið er hvers manns mesta eftirlætisorð.

Jújú, en nú er ég farin að föndra.
 
 
aprískósa
 
miðvikudagur, febrúar 18, 2004
 
Það væri nokkuð skondið að þegar maður hikstaði væri það vegna að einhver væri í alvörunni að tala illa um mann. Þá þegar maður færi að hiksta þá mundi maður bara andvarpa og hugsa oohhh, hver er nú að þessu. Þetta gæti alveg gengið upp, það er talað illa um alla, einhvern tímann. Þá fer maður að velta fyrir sér fólkinu sem var með hiksta í einhverja mánuði samfleytt. Mér finnst þetta stórfín kenning. Enda fæ ég frekar sjaldan hiksta....

ég var að fá niðurstöður úr strong-áhugasviðskönnuninni. Hún kom mér að dulitlu leyti á óvart.
Mín persónulega týpa var; artistic, social, realistic. Þar kom í ljós að það starf sem hentar mínu áhugasviði á víst að vera túlkur. Túlkur? Það kom mér ekkert gríðarlega á óvart að vera há í listadótinu þar sem ég var mjög jákvæð gagnvart öllu sem tengdist tónlist og leiklist. En raunsæin kom soldið út úr kú. Byggja, laga, vinna utandyra!? Svo ekki ég. Ég las þetta og varð eitt spurnarmerki á svip. Næsta á eftir var íhugla týpan, sem að ég held að eigi frekar við mig, ekki vegna þess hve íhugul ég er, heldur vegna þess að þar voru vísindi og stærðfræði og svoleiðis sem mér finnst ágætt. Ég held að það hafi ekki verið hjá mér þar sem ég hafi verið tiltölulega neikvæð út í lækninn (sem þá mögulegan starfsframa fyrir mig) þar sem ég hafði nokkurn veginn gert það upp við mig að ég hefði ekki nógu mikinn áhuga á veiku og öldruðu fólki til að geta unnið sem læknir. Námið heillaði mig þó (nema kannski verklegi hlutinn...), enda kom í ljós að ég var há í: vill lærdómsumhverfi, læra af fyrirlestrum og bókum, tilbúin til að eyða mörgum árum í skóla, leitar þekkingar þekkingarinnar vegna. Mér fannst það brill, því að mig langar helst að vera bara í skóla, þurfa ekki að fara út á vinnumarkaðinn. Veit ekki hvort að það sé kannski bara að ég sé að leita í það sem ég þekki, öruggt umhverfi... En ég er engu nær, frekar fjær, því hvað ég á að velja í háskólanum í haust en ég var fyrir þessa könnun. Kannski maður taki þetta bara alvarlega og verði túlkur!? Burt efnafræðin sem kannski kom mest til greina (efnafræðingur var ekki einu sinni í topp tíu störfunum, en þau voru alveg steikt!) og túlkurinn hér kem ég! Nei, vá ég er bara orðin ringluð. Eða maður geri bara eins og áhuginn virðist liggja og leggi tónlistina fyrir sig. Held samt ekki, maður þarf kannski líka að hafa einhverja getu og hæfileika... hmmm... En já áður en ég fer að babbla meira um þetta próf þá held ég að það skynsamasta í stöðunni væri að fara að sofa. Hei, (ég get nottla aldrei hætt) mér fannst fyndið hve gríðarlega lítinn áhuga ég hafði á; íþróttum og matargerð! Varð mjög hissa á miklum áhuga á sölumennsku, einhver misskilningur í gangi þar.... En nú er ég í alvörunni hætt að tala. Löngu hætt.
 
mánudagur, febrúar 16, 2004
 
Bara stóðst ekki mátið að monta mig pínu af litla brósa. A-sveit Laugalækjarskóla er Íslandsmeistari barnaskóla í skák. Er ekki litli drengurinn í henni. Vann allar sínar skákir og fékk borðaverðlaun einhver fyrir það. Fær liðið nú að keppa fyrir hönd Íslands á norðurlandamóti barnaskóla í skák. Drengurinn varð mjög glaður við þær fregnir og hélt að hann fengi að fara til útlanda eins og venjan er en í ár er keppnin haldin á Íslandi. Hann varð nú alveg pínu svekktur þegar hann frétti það. Hann esssso mikið krútt.
 
laugardagur, febrúar 14, 2004
 
Tölvuskjárinn er svo fínn! Ég tók til og setti allt í sérmöppur, ég er svo dugleg að það eru bara ekki til nógus terk orð til að lýsa því!

Annars er eitt sem mér finnst nokk merkilegt. Nú til dags má ekki hafa neitt sem heitir sérbekkir, þannig að í bekk með níu ára bróður mínum eru fimm drengir af fimmtán ofvirkir. Eftir fyrsta bekk hætti kennarinn hans, eftir margra ára kennslu, vegna þess að þessi bekkur var of mikil andleg og líkamleg raun. Þrátt fyrir það voru tvær aðstoðar manneskjur með í bekknum. Síðan kom annar kennari, hún er svo stórfurðuleg að þegar foreldrar mínir fara á einhverja fundi þá skilja þeir hvorki hvað hún er að segja né hún hvað þau eru að segja. Það er ekki alveg vitað hvort hún hafi orðið svona skrýtin á að vera í þessum bekk eða hún haldist enn í honum vegna þess hve skrýtin hún sé.. Í fyrra hélt móðir mín upp á afmæli drengsins og var öllum bekknum boðið. Var það í það minnsta mjög hávaðasamt. Einn drengurinn sem á við einhver andleg vandamál að stríða, hékk utan í mér þar sem ég bjó til dýr og sverð úr mjóum blöðrum og tjáði ást sína á mér lágróma. Var ég frekar hissa en þetta var reyndar stórundarlegt barn. Slagsmál um sverð og hávaði allan tímann. Þá sór móðir mín þess eið að bjóða ekki öllum bekknum aftur. Nú í gær var haldið afmæli bróður míns og öllum bekknum boðið. Var veislan haldin í keiluhöllinni, en þar er stílað á barnaafmæli. Mæta börnin, það varð mjög skrautlegt afmæli. Barnið sem tjáði ást sína á mér árið áður hékk nú í móður minni og játaði nú ást sína á henni (svikarinn!), fannst keilan leiðinleg og sat með kúluna og vildi ekki skila henni. Ef tókst að fá hann til að spila þá lét hann bara kúluna detta með þyngslum á brautina. Þó fannst honum þetta frekar leiðinlegt og lét sig oft hverfa. Tvö börn fóru saman og rændu leikföngum af börnum sem voru þar óviðkomandi þessum bekk. Þurfti starfsfólk keiluhallarinnar að koma að máli við móður mína til að reyna að fá hana til að endurheimta leikföngin af hinum þjófóttu börnum. Neituðu börnin þráfaldlega að skila leikföngunum þó móðir mín bæði (bláókunnug kona fyrir þeim). Tókst það á endanum, enn önnur börn gengu um meðal hinna keilugestanna og betluðu um spilapeninga. Þegar átti að snæða fóru börnin að barnum en þar var pizzan. Þar var fólk að reykja og drekka. Fóru átta og níu ára börnin upp að barnum og fengu þar mat. Þetta fannst móður minni ansi fáranlegt að veitingarnar sem innifaldar voru í afmælispakkanum væru veittar á svæði þar sem bæði er reykt og áfengi selt. Voru börnin þarna í reykjarmekki í afmælinu. Eftir þetta afmæli var móðir mín alveg farin á taugum eftir að hafa elst við klikkaða krakka í tvo tíma.
Mér finnst þetta soldið merkilegt. Ég er farin að skilja af hverju bróðir minn kennir oftast magaverkja á morgnana og vill ekki fara í skólann ef þetta er það sem hann þarf að lifa við á hverjum degi. Það ætti nú að vera nóg til að gera hvern mann vitlausan.
 
föstudagur, febrúar 13, 2004
 
Ég er haldin krónískum seinleika. Það skiptir næstum ekki máli hvert ég er að fara, þá legg ég alltaf af stað of seint.
Þó ég vakni tveimur tímum áður en ég á að mæta í skólann þá legg ég of seint af stað. Á síðustu önn tók ég yfirleitt strætó í skólann. Það brást ekki að um fimm mínútum áður en ég þurfti að ná strætó lagði ég af stað hlaupandi frá heimili mín (tekur um tíu mín fyrir mig að labba, líklega er það samt vegna þess hve gríðarlega hægt ég labba). Fólkið í búðinni sem ég hljóp alltaf framhjá var örugglega farið að þekkja mig.
Um daginn stóð ég mig að því að vera á leiðinni í tónskólann, stóð ég upp tíu mínútum áður en ég átti að mæta. Brá mér svo yfir hve tímanleg ég var að ég flýtti mér inn í eldhús og tók að snæða pistasíuhnetur þar til öruggt var að ég væri alveg að vera sein þannig að ég þurfti að hlaupa út í bíl og mætti pínu of seint.
Ég held að ég hafi samt komist að því að þetta séu leifar af þrjósku nokkurru sem ég var haldin þegar ég var lítil. Á morgnana þá gerðist það oft að foreldrar mínir tóku að reka á eftir mér þar sem ég sat einhvers staðar að klæða mig í mestu rólegheitum. Ég hreinlega þoldi ekki að láta reka á eftir mér þannig að í mótmælaskyni tók ég bara að gera hlutina hægar. Geri ég þetta enn, nema nú er ég meira að rífast við sjálfa mig. Á morgnana lít ég á klukkuna og því styttra er í brottfarartíma því hægar geri ég hlutina. Mér finnst það svo fyndið. Ég er soo vitlaus!

 
mánudagur, febrúar 09, 2004
 
Ég sé hér á blaði útundan mér að litli bróðir minn hefur hripað niður á blað "hjalti er bestur". Þegar maður var lítill var maður einmitt oft að setja þetta orð sem viðhengi við eigið nafn. Það sem ég skildi bara hreinlega ekki þá, var þegar stelpur skrifuðu nafn sitt og settu bestur við. Óbreytt. Anna bestur. Nú hljómar þetta svo ankannalega að mér finnst minningin hljóti að vera uppspunni með öllu. Jafnvel 9 ára krakkar hljóta að hafa einhverja tilfinningu fyrir hinni íslensku málfræði. Ég man að í mikilmennskubrjálæði mínu (sem að sjálfsögðu er enn við lýði) þá hafi ég oft ritað Ásta best, en alltaf beygði ég orðið. En ég er þó farin að hallast að því að þetta hljóti að vera ímyndun í mér eins og alltaf. Erfitt að vera ímyndunarveikur.

Ég er búin að vera að bursta tennurnar allan tímann við þessi skrif (sem voru ýtarlegri áðan en eyddi ég langri efnisgrein vegna þess að mér fannst hún satt best að segja þvæla) og eru tennur mínar orðnar all vel burstaðar. Það er stórhættulegt að hafa tölvuna hér á ganginum í slíkri nálægð við baðherbergið. Ég sest alltaf niður við tannburstun og stend ekkert upp aftur. Þarf að kíkja í póstinn og aðeins að kíkja hér og þar, jafnvel skrifa einhverja vitleysu á þessa síðu. Allt tekur þetta tíma. Sem tannlæknirinn minn ætti að vera ánægður að vita að fer í mjög vandlega tannburstun. Sem er bara gott. Og jájá.

 
fimmtudagur, febrúar 05, 2004
 
Æsifréttir af nefinu: það þykist vita lengra en það nær. Bölvuð vitleysa í því alltaf.
 
 
Var að lesa síðustu færsluna mína. Fékk gríðarlegan fiðring í fingur mína til að laga hana, málfar, greinarmerki og annað en ákvað að skrifa sundurleysi hennar á andlegt ójafnvægi eftir gríðarlega eldraun.

Annars veit ég ekki alveg af hverju ég þykist ætla að skrifa eitthvað núna. Líklega vegna þess að ég er að forðast spænskuverkefnið mitt og allt hitt heimanámið sem bíður mín eftir hin tíðnefndu veikindi.

Það er mjög sérkennilegt að vera með svart nef í skólanum. Maður verður mjög meðvitaður um eigið nef og mér hefur sjaldan verið hugsað eins og til þess og í dag. Fyrir áhugasama um velferð nefsins bendi ég á nýja heimasíðu sem á verða eingöngu skrifaðar neffréttir til að allir geti fylgst náið með gjörðum nefs míns.. neihj, þetta er nottla lygi, hver mundi stofna heimasíðu um nef sitt??? Nei hún er að sjálfsögðu líka um vinstri litlu tá... Nei en í alvöru talað (fliss) þá er litur nefs míns farinn að líkjast meira rauðum en svörtum, sem er mjög gott. Hentugt fyrir mig sem roðna svo oft þannig það fellur bara beint inn í umhverfið.
Svona er þetta sniðugt.
 
miðvikudagur, febrúar 04, 2004
 
Mér líður mér líður mér líður svo asnalega

nefið á mér er svart. já svart.
fékk kvef og samhliða því fékk ég soldið heiftarlegar blóðnasir (alveg margsinnis). í morgun þegar ég ætlaði að fara að greiða mér þá finn ég að ég er að fá blóðnasir. hugsa ohh, ekki aftur, ég nenni ekki að fá blóðnasir í skólanum. það er svo asnalegt.
gerist þetta svona tíu mínútur í átta. korter yfir níu er ég enn með fossandi straum úr annarri nösinni. er farið að svima og hugsa, hei þetta er ekki alveg venjulegt þannig að fæ ég hann föður minn til að skutlast með mig niður á háls- nef og eyrnalækna dótið (hringdum áður til að vita hvert við ættum að fara). kem ég þangað og læknirinn minn örugglega nýskriðinn úr læknaskóla, hann var alla vega tiltölulega ungur ef ég hefði verið með viti eða rænu hefði mér liðið illa útlitslega séð (reynið þið bara að greiða ykkur eða setja teygju í hárið þegar önnur höndin er upptekin við að halda handklæði við nefið á manni!)
Síðan er ég deyfð, bómull með einhverju deyfigumsi troðið upp í nefið á mér, deyfigumsið lak á varirinar mínar sem að ég varð að halda opnum til að ná að anda einhverju súrefni, önnur nösin full af bómull og hin, já því sem oft vill vera í nösum manns þegar að maður er kvefaður. síðan tekur hann prik sem að notað er til að brenna æðina, drulluvont, þegar þetta er búið fer hjúkkan að hafa áhyggjur af mér því ég er nokkuð föl og slöpp, óglatt og svimar og ikkvað svoleiðis smáræði þannig mér er skellt á hvolf. Þar tekur hún blóðþrýsting, sem er alltof lár, og ég bara daddara, gaman á hvolfi. síðan kemur hjúkkan já þú ert með eitthvað svart á nefinu. ég, jei, en frábært, hún reynir að þrífa það en það gengur ekki. læknirinn kemur aftur til að skrifa einhvern lyfseðil og minnist hjúkkan á svarta dótið. hann alveg, já ég rakst aaaðeins í nefið á leiðinni út (með brjálaða brenniprikið, sem kemur einhverjum efnahvörfum af stað), jájá það verður orðið fínt í kvöld eða morgun, segir hann og forðar sér hið snarasta út. ég alveg gríðarlega máttlaus velti þeirri hugmynd fyrir mér að fara í skólann, búin að missa slatta úr. líður ekkrt brill, lít síðan í spegil, með húfu, hvít sem vofa fyrir utan svart nefið með einhverju kremadóti og hugsa, sénsinn að ég fari í skólann, hefði kannski þolað líkamlega þreytu en vá ekki andlegt áreiti sem að ég hefði orðið fyrir með mitt nef. Nú er ég að hugsa um að fara í tónskólann, slæmt að missa úr í honum líka. þannig að ég er að fara með mína máttförnu fingur, deyfðu varir og mitt svarta nef sem er fullt af, þið vitið hverju, sem að ég get ekki snýtt því að það var verið að brenna á mér nefið og má því ekki við áreiti. puhhhh

ásta með svarta nefið
daddadadadada

þarf aðeins að vinna í textanum, en held að þetta verði ýkt vinsælt lag. rúdolf er svo ekki í tísku lengur. svart er miklu meiri tískulitur.
 
þriðjudagur, febrúar 03, 2004
 
Lýsi eða ekki lýsi

það er sko spurningin. Ég er lasin í annað sinnið á tveimur vikum. Móðir mín segir að ég eigi nú bara að taka lýsi, það sé allra meina bót.
Ég malda þá alltaf í móinn og kem með þá þreyttu sögu að ég æli ef ég taki lýsi (sem gerðist sko, ekki var það gaman). En nú er ég alltaf lasin og alltaf að missa af æðislega skemmtilegum prófum í skólanum. Það er ekki gott því það er svo gaman í prófum. Þess vegna ætla ég að vona að ég verði ekki með hita á morgun svo ég fái að taka allt að tvö próf. Ooo, ég hlakka svo til. Sérstaklega þar sem ég er bara búin að sofa í dag en ekki læra.....

Ég er nú komin í hóp hinna viðkunnalegu gleraugnagláma.
Finnst mér ég mjög virðuleg með gleraugu. Verð núna miklu gáfaðri. Er alveg handviss um það. Þar af leiðandi ætti það að reddast þó ég sé ekki búin að læra fyrir prófin. Set bara upp galdra-gleraugun og tatatatata brillera!! (Vá hvað ég er fyndin, briller eru sko gleraugu á dönsku. er svooo orðheppin að mér finnst að það ætti að skrifa bókaseríu um snillinginn mig!)
 
Mestmegnis bull, en ef vel er gáð, hver veit? Kannski að þið rekist á eitthvað af viti...

Úmpalúmpar

Vilborg Sigga Sara Salóme Pabbi Margrét Mamma Lísa Líney Kristjana Kristín Katla Íris Hugi Hjálmar Héðinn Heiða Guðný Eyrún Björgvin Bjarnheiður Berglind Árni Bjöss Arngrímur
Úmpalúmpaleikföng

Stærðfræðiheimur Stigull Rithringurinn Mæspeisið Margt og merkilegt Ljóð.is Hvarf Hotmeil Háskólinn Dindill

Powered by BloggerFornrit

09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 07/01/2011 - 08/01/2011 /