<$BlogRSDURL$>
Dvel ég í draumahöll og dagana lofa
miðvikudagur, mars 31, 2004
 
Oft verða fætur blautir ef slabb er úti
 
mánudagur, mars 29, 2004
 
Úr bálki hrakfalla

Það er svo langt síðan að síðast birtist dálkur úr þessum bálki að mér fannst kominn tími til, þannig að ég ætlaði að deila þessari hugljúfu sögu með ykkur.

Í dag trítlaði ég um sal skólans því að ég var í jógatíma. Ég var þar og hljóp í hringi (ekki bara sökum geðbilunar, heldur vegna upphitunar, þetta var þrautakóngur). Síðan sagði þrautakóngurinn, og handahlaup. Ég hugsa ekkert mál. Við erum að sjálfsögðu að tala um manneskjuna sem tók handahlaup á sviði í aðalhlutverki tólf ára leikritsins í Laugarnesskóla (ég veit, þið hefðuð aldrei trúað því hve fræg ég er!).
En ég var sem sagt trítlandi og tilbúin andlega undir eitt handahlaup. Set ég þá aðra höndina fyrir framan hina þar til hún kemur að gólfinu, hin höndin fylgir fljótlega á eftir og lendir stuttu frá hinni. Á þessu sama augnabliki eru fæturnir uppi í lofti en þó á leiðinni niður. Síðan lendir annar fóturinn á gólfinu. En þá verður hann ringlaður, hann var íklæddur sokk sem að varð mjög hissa á að fyrirfinna svo sleipt gólf. Þannig að hann lenti á gólfinu og tók á rás. Síðan kom hinn fóturinn og var engu minna ringlaður og hissa en fyrri fóturinn, þannig að þeir rifust í smástund um í hvora áttina þeir ættu að taka stefnuna. Á meðan á þessu rifrildi stóð hafði búkurinn reynt að koma sér í jafnvægisstöðu en vegna hávaðarifrildis fótanna sem reyndu að reikna út núning og mótstöðu, vindhraða og stöðuorku, átti hann í töluverðum erfiðleikum með það. Þegar fæturnir voru búnir að rífast í átt að þeirri niðurstöðu að eðlisfræðikunnátta þeirra væri frekar bágborin ákváðu þeir að fara í sitthvora áttina (þeim sinnaðist svolítið, enda hægri fótur alveg á því að núningskrafturinn væri ekki nógur til að vega upp hreyfiorkuna..). Búknum fannst þessi niðurstaða fótanna frekar slæm, hann beið smástund í loftinu þar til hann féll í gólf. Og eigandi búksins fór að flissa yfir eigin hrakföllum. Enda ekki við hann að sakast, þetta voru bara fæturnir.
 
 
Rétt í þessu réðst á mig illvígur sjampóbrúsi.
Ég er farin að hlúa að sárum mínum.
 
sunnudagur, mars 28, 2004
 
Mig dreymdi svo hræðilega í nótt. Við skulum bara segja að ég hafi orðið einkabarn í draumnum. Það var allt svo raunverulegt. Síðan var ég að rökræða við gamla bekkjarfélaga sem hlógu að mér og héldu að þetta væri bara grín, en það var ekki þannig. Það var laus morðingi. Það var alltof mikil ógn og drungi í þessum draumi. Vaknaði með dúndrandi hjartslátt og það tók mig töluverðan tíma að átta mig á því að þetta hefði allt saman verið draumur. Það sem mér létti.
Það er svo skrýtið að maður trúi öllu í draumunum því að umhverfið er oft svo absúrd. En manni finnst þetta allt eðlilegt, sama hve undarlegt allt er.
 
 
mandarína
 
laugardagur, mars 27, 2004
 
Ég er að gera hávísindalegar tilraunir á síðunni minni. Þær felast meðal annars í því að koma á tenglum á frækið fólk.
En vegna skipunar frá tæknilegum ráðgjafa verða tenglarnir í öfugri stafrófsröð.

Ohh, finnst ykkur þetta ekki fagur fjólublár litur?
 
föstudagur, mars 26, 2004
 
Snjór? Það getur ekki verið. Þessi snjór sem kom í dag hlýtur að hafa verið helber ímyndun í öllum Reykvíkingum. Það er nefnilega komið sumar í símanum mínum.
 
miðvikudagur, mars 24, 2004
 
Nei, fíflið þitt

nei, ég er ekki sandkorn á sólarströnd
ég er sandkorn í auga
sandur í tönnum

nei, ég er ekki hár í lokkaflóði
ég er hárið í súpunni
ljósa hárið á öxlinni

nei, ég er ekki dropi í hafi
ég er dropinn sem lekur úr auganu
fellur ofan á hálfklárað verk þitt
og kámar út blekið


Elísabet Arnardóttir
1961-

Þetta ljóð var valið ljóð dagsins í dag á ljod.is

Fott ljóð. Vildi bara deila því með ykkur. Þið getið að sjálfsögðu aldrei giskað á tengsl mín við höfund? Nei, það hélt ég ekki.
 
þriðjudagur, mars 23, 2004
 
Ég á tyggjókarton. Það fékk fyrir kannski tveimur vikum. Ég held að ég hafi ekki klárað neinn tyggjópakka. Samt er kartonið hálfnað. Það er vegna þess að ég tek mér tyggjópakka. Opna hann og fæ mér tvö þrjú tyggjó og hendi pakkanum eitthvert. Nú liggja þeir á víð og dreif í herbergi mínu og húsinu umkomulausir tyggjópakkar.
Ætli þetta sé slæmt frá sjónarmiði tyggjópakkanna? Eins og ég hafi tekið tvíbura af tíburum og tuggið og skilið hina eftir í von og óvon eftir endurkomu tvíburanna. Að það sé betra að lina þjáningar hinna eftirlifandi áttbura. Eða ætli þetta sé betra svona. Þá líður tyggjóunum betur, ferskt loft og lengri líftími?
Um daginn átti ég í heillöngum rökræðum við manneskju nokkra um hvort að tyggjóum þætti betra að vera í ruslatunnum eða kramin á gangstéttum. Ég var að sjálfsögðu stuðningsaðili ruslatunnanna.
Talandi um tyggjó. Litli bróðir minn, hinn níu ára, kom hér gangandi að mér við þessi bloggskrif. Hélt hann á reglustiku sem á var föst tyggjóklessa. Þetta er tyggjóklessanan sem týndist.
Jú það er saga að segja frá því. Á laugardagskvöldið sat ég heima og passaði þessar elskur. Á tímapunkti nokkrum ákvað ég að æfa mig, en þar sem að það var of mikið rusl inni í eigin herbergi ákvað ég að æfa mig í herbergi litla bróður (sem er snyrtilegri en ég). Fer ég þangað og jórtra á mínu vanabundna leðri. Það er ekki hentugt við æfingar þannig að ég fjarlægi það úr munni mínum, en þá tek ég eftir því að engin er ruslatunnan í herberginu. Ég tvístíg í smástund en legg það síðan á blaðsnepil á skrifborðinu. Æfi ég mig og gleymi tyggjóinu.
Nokkrum klukkustundum síðar stend ég á ganginum heima og heyri feikilegt öskur koma frá herbergi bróður míns og láværan dynk. Hafði hann komið að tyggjóinu í herberginu sínu og gripið til þeirra ráða að grýta því í átt að stofunni. Tyggjóið flaug því framhjá mér og sem leið lá inn í stofu. Þá fór fram gríðarleg leit að umræddu tyggjói sem ég stóð ein fyrir því tyggjókastaranum var alveg sama og varð eiginlega bara pirraður á þessu veseni á mér að vilja finna tyggjóið. Þá öskraði ég pínu á hann og kallaði hann óforbetranlegan. Hinn bróðir minn fór þá að flissa og hélt að ég væri að kalla hann góðan eða eitthvað (út af forskeytinu ó). Þannig leystust leitaraðgerðir í orðabókauppflettanir til að fræða hinn bróðurinn. Hinn óforbetranlegi vildi ekkert heyra minnst á orðabókaskýringar. Að endingu fóru allir að sofa úrvinda, ýmist eftir tyggjókast, leit og skræki, eða fliss.
En nú loks er tyggjóið komið í leitirnar og verður jarðað í kyrrþey.
 
mánudagur, mars 22, 2004
 
Mér finnst ballerínukexið gott
 
sunnudagur, mars 21, 2004
 
Væl væl og grenj grenj

Mér til mikillar armæðu og hugarkvala tók ég eftir því að það er sprunga á klarinettinu mínu! Það er hræðilega hræðilega hræðilega hræðilega hræðilegt. Ég átti að fara í prufuspil fyrir eitthvað norðurlandalúðrasveitadæmi en vildi ekki spila á klarinettið til þess að sprungan stækkaði ekki og spilaði á annað klarinett en mitt. Það var vægast sagt hræðilegt. Ég spilað verr en bara um getur í allri sögu klarinettspilerís. Gat ekki lesið einfaldasta lag af blaði. Þetta var svo sorglegt. Ég var líka miður mín yfir klarinettinu því að ég hef alls ekki tíma til að senda það í viðgerð, það er mest að gera núna í tónlistardóti. Mjög slæmt þannig ég segi bara

grenj grenj og væl væl
 
laugardagur, mars 20, 2004
 
Ég er svo mikið nörd að ég er að fara að æfa mig á laugardagskvöldi. Reyndar er ég teppt á heimili mínu við barnapössun þar sem foreldrar mínir skunduðu á árshátíð.
En eftir frekar daprar og fáar æfingar í síðustu viku vegna anna í skólanum fékk ég panikk-kast, horfi á dagatalið með hræðilega ógvekjandi dagsetningum: prufuspil á morgun fyrir eitthvað dót þar sem að maður á helst að vera búinn með 6. stig (er að fara að taka 5. núna) þannig hvað er ég að vilja upp á dekk? Tónleikar í salnum eftir rúma viku, þar er öndun í rugli þannig að annað hvort á ég eftir að deyja úr loftleysi eða bara verða eins og tómatur. Þá hefur atriði mitt alla vega eitthvert skemmtanagildi. Sem er gott. Tónleikar, þar sem ég spila á píanóið, líka eftir rúma viku. Er ekki búin að læra lagið utanbókar. Síðan eftir þetta er bara næstum komið páskafrí. Stuttu eftir páskafríið er stigsprófið mitt. Jesús pétur og guð minn góður. Ég er farin að sitja úti í horni og hafa áhyggjur eins og mín er von og vísa.
 
föstudagur, mars 19, 2004
 
Ég gerði flugu mein

Um daginn sat ég í rúminu, lærði og talaði í símann. Þá heyrði ég suð sem heyrðist öðru hvoru. Suðið truflaði einbeitingu mína þannig að ég lagði skóladótið frá mér þar sem ég gat ekki lært og talað í síma samtímis þessu suði. Þegar suðið ágerðist gat ég ekki einu sinni fylgst með því sem sá sem sat hinum megin við símtólið sagði. Stóð ég upp með síma í annarri hendi og bók í hinni sem ég mundaði sem vopn. Mér yrði ekki svefnsamt með þetta sífellda suð fyrir eyrum. Fylgdi ég flugunni eftir með augunum þar til hún stöðvaðist á veggnum við rúmið. Steig ég upp á rúmið og lamdi í átt að flugunni. Bjóst við að hún mundi flögra bur með þreytandi suði vegna sinna skjótu viðbragða. En svo var ekki. Bókin lenti beint á flugunni og kramdi hana til bana. Hún var föst við bókina. Fluguvessar voru á kápunni og blóð. Horfði ég með ógeði á afleiðingar gerða minna. Gekk inn á baðherbergið til að afmá þetta úr huga mínum og losa mig við hræið. Þurrkaði fluguna burt með klósettpappír. Sturtaði niður.
Hélt áfram að tala í símann, þungbúnari en fyrir flugnadrápið.
Svaf síðan vært alla nóttina án hljóðtruflana.
 
mánudagur, mars 15, 2004
 
Plötur eru skemmtilegar. Þær eru skemmtilegri en geisladiskar.

Ég keypti mér plötur um daginn sem hafa gott afþreyingargildi. Keypti mér: sinfóníuhljómsveit Íslands í takt við tímann (árið 1986 eða þar um kring) sem þýðir að á plötunni er gleðibankinn og fleira frá þeim tíma. Mjög skondið. Líka Stuðmannaplötu og lög úr Star Wars með fílharmóníusveit Lundúna. Það er miklu notalegra hljóð í plötum, heyrast svona brak og brestir,og svo eru stundum rispur.

Ætla að deila með ykkur dæmisögu sem að birtist á leynibloggi mínu í sumar:

Einu sinni var dvergur sem að hét Jónatan. Hann átti tvíburarisa sem að hét Natanój. Þeir voru augljóslega ekki eineggja tvíburar því hver heilvita maður sér að dvergur og risi geta ekki verið eineggja, þeir voru tvíeggja. Þeir voru samt mjög líkir og fólk alltaf að rugla þeim saman.

Boðskapur sögunnar er sá að þó tvíburar séu ekki eineggja þá geta þeir samt verið líkir.
Mér finnst að fyrst að ég hef svona augljósan hæfileika í að skrifa sögur með boðskap að ég ætti að fá að skrifa svona dæmisögur fyrir biblíuna. Ég held að ég hætti bara í skóla til að geta einbeitt mér af heilum hug við að skrifa svona sögur, þetta er alveg frábært plan! Þá þarf ég alla vega ekki að ákveða hvað ég á að gera í háskóla. Bara að ég vissi hvað ég vil gera......... erfitt.......

Og sjáið þið. Fyrst hve frábærlega sniðug, skemmtileg og klár ég er! Og líka að þann áttunda júní 2003 hafði ég áhyggjur af því sama og ég hef áhyggjur af nú.

Hvort segir það meira að ég hafi of miklar áhyggjur eða að ég sé búin að hafa feikinógan tíma til að ákveða þetta?
 
sunnudagur, mars 14, 2004
 
Nú er ég orðin endanlega geðveik.
Ég skráði mig í samræmt stúdentspróf í íslensku af einskærri sjálfspíningarhvöt og geðbilun.
 
 
Óráðin framtíð

Skundaði ég í dag á háskóla kynninguna. Þar fékk ég ógrynnin öll af bæklingum en er þó engu nær hvað gera skal í haust.

Amma mín segir skýrt og skorinort að ég eigi bara að fara í læknisfræði. Það vantar lækni í fjölskylduna.

Mamma segir að ég eigi að velja eitthvað sem ég hef áhuga á. Puhh, ég hef áhuga á að læra svo til allt. Ég get bara engan veginn ímyndað mér mig starfa sem eitthvað. Segum sem svo að ég fari í efnafræði, hvað á ég þá að verða efnafræðingur? Eðlisfræði, stærðfræði, læknisfræði, lyfjafræði, íslenska, heimspeki, verkfræði, efnaverkfræði, meinatækni, það er til ótrúlega mikið af fögum. Nema að ég ætla reyndar ekki í stærðfræði, held að maður verði geðbilaður eða skrýtinn á því. Finnst samt stærðfræði skemmtileg. Svona einn, tveir áfangar á önn kannski.

Ég stend mig því miður vel í öllum fögum, þannig að ég get ekki valið mér fag til að fara í á grundvelli þess að það sé það eina sem að ég er góð í.

Síðan gæti hætt þessari vitleysu og bara einbeitt mér að tónlistarnámi. En það sé ekki fyrir mér vegna áhuga á námi. Langar helst til þess að verða eilífðarnemi.

Síðan er ég haldin ýmsum fordómum, ég held að ég sé ekki nógu þolinmóð eða jákvæð gagnvart veiku fólki til þess að verða læknir. Það vantar eitthvert umönnunargen í mig.

Ég á örugglega eftir að ákveða þetta daginn áður en ég verð að skrá mig. Það gerði ég með menntaskóla. Hugsaði MR-MH. Var að fara til útlanda daginn eftir og varð að ákveða mig. Þannig að endingu var ákvörðunin næstum tekin með því að kasta krónu. Nokkuð magnað.

Held að MH hafi verið valinn kannski sem uppreisn gegn sjálfri mér því að ég ætlaði alltaf í MR þegar ég var lítil.

Þannig að til að velja mér fag þá þarf ég að fá mér tening, peningur er ekki með nógu margar hliðar, og kasta.

Ekki get ég ákveðið þetta.

Ohh, höndla ekki allar þessar ákvarðanir sem eiga eftir að hafa áhrif á líf mitt. Vesen.

Er farin að æfa mig.
 
föstudagur, mars 12, 2004
 
Mér hefur aldrei tekist að fá neinn til þess að hlaupa fyrsta apríl. Aldrei tekist að gabba neinn að ráði, ég hlýt að vera mjög ógabbandi. Þegar að maður var lítill heyrði maður af fræknum aprílgöbbum og eyddi miklum tíma í að hugleiða og skipuleggja almennilegt aprílgabb. Ég verð strax að fara að hugsa út í þetta því að apríl nálgast. Hver veit nema árið í ár sé ár gabbanna. Nei, það þýðir ekki að leggja árar í bát þó á móti blási. Verð að róa öllum árum að þessu gabbi, er nú ekki komin það til ára minna að það gangi ekki. Verð bara að hugsa ekki í árum heldur öldum. Ári eru þessi orðatiltæki skemmtileg. Árans, þetta á samt aldrei eftir að ganga. Í áraraðir hafa öll plön um að narra einhvern verið árangurslaus. Verð að hafa hernaðarlegar árásir, veit samt ekki, þetta er svo mikil áraun. Þetta á áreiðanlega aldrei eftir að ganga, enda ekki árennilegt. Er þetta nokkuð árátta?
 
fimmtudagur, mars 11, 2004
 
Ég fékk gallaðan þrist. Það var enginn lakkrís í honum. Ótrúlegt svindl.
 
 
sítróna
 
 
Það skiptast á skin og skúrir
 
þriðjudagur, mars 09, 2004
 
Jólasveinarnir fylgdu jólaseríunni á himninum þar til þeir fundu Jesús í ráðhúsinu. Þar gáfu þeir honum jólagjafirnar fimm smáfiska (heldur uppi tveimur fingrum), tvö smábrauð (heldur uppi fimm fingrum), kross (gerir hring út í loftið) og kringlu (gerir kross út í loftið).

Þetta sagði að sjálfsögðu fröken Salvör í jóladagatalinu Völundur (með Gunna og Felix). Ef einhvern langar að fá þetta atriði leikið, eða önnur atriði úr þessu jóladagatali getur sá hinn sami hringt í mig og get ég að öllum líkindum orðið að ósk hans. Sérhæfi mig helst í setningunum hennar Salvarar, en kann þó fjöldan allan af setningum þeirra Gunna og Felixar. Get einnig brugðið fyrir mig smá frá honum Lofti og búálfinum Bóthildi. Ekki eins sleip í Völundi sjálfum og herra Tívolí þó ég geti lýst fyrir ykkur því helsta sem gerist í þeim þáttum þar sem þeim bregður fyrir.

Annað gullkorn frá Salvöru:

Þar sem þið eruð hæstir í bekknum (mælir þá út með höndunum, rétt eftir að hún felldi þá fyrir ósýnilegu svörin við ósýnilegu spurningunum) þá fáið þið verðlaun.

Er farin að læra fyrir próf sem verður ekki með ósýnilegum spurningum.
 
mánudagur, mars 08, 2004
 
glóaldin
 
 
Dúllaðasti frændi minn á þriggja ára afmæli í dag. Barnið er algjör rúsína.
Mundi óska honum til hamingju ef hann væri læs og kynni á tölvur...

En, merkileg finnst mér tilhneiging fólks til að sitja aftast hvert sem það fer (nema leikhúss). Á þetta ekki við mig, enda sest ég yfirleitt fremur framarlega, veit ekki alveg hvort það sé vegna minnar ímynduðu sjóndepurðar eða hreinlega beri vott um kennarasleikjuhátt sem ég hef jafnvel verið ásökuð um (kem alveg af fjöllum, þó að maður viti svörin, segi þau og sitji fremst, spyrji jafnvel spurninga, er maður þá kennarasleikja.. já reyndar líklega). En í lífsleiknitímunum þar sem allur útskriftarárgangurinn mætir hefur fólkið mjakast lengra og lengra afturábak með hverjum tímanum sem líður. Nema fremsta röðin (hóst, sem ég sit í). Í fyrsta tíma var röð beint fyrir aftan okkur og aðrar hinum megin við. Síðan smám saman fækkaði fólki beint fyrir aftan og fleiri og fleiri sátu algjörlega aftast. Í dag þegar fyrirlesarinn kom, þá voru fjögur sæti fremst til vinstri (hóst, þar sem ég sat) og síðan voru svona fimm metrar, í það minnsta, í næstu raðir. Þar sem allir sátu í einni heljarinnar kös. Var þetta afar hjákátlegt. Fólk sem hafði setið tiltölulega framarlega hinum megin höfðu fært sig aftar til að vera ekki út á miðju gólfi. En við ákváðum að beygja okkur undir slíkan félagslegan þrýsting og sátum sem fastast fremst, reyndar eins og já, hálfvitar, en við því lítið að gera, erfitt að forðast sitt innra eðli. Síðan var allt fólkið beðið um að færa sig framar því að fyrirlesarinn þurfti kíki til að geta greint andlit nemendanna sem sátu í órafjarlægð.
 
sunnudagur, mars 07, 2004
 
greipaldin
 
 
Ohh, það er svo gaman að fornbókaverslunum og slíku. Ég fór í verslunina Gvend dúllara í gær og keypti mér nokkrar plötur og gamlar bækur. Ánetjaðist gömlum bókum sem barn, þar sem mér þótti yfirleitt skemmtilegra að lesa gömlu bækurnar og þræddi fornbókaverslanir í leit að bókum í safnið. Var kannski svolítið, bara pínu, skrýtin. Nei, en það rugl, það mundi enginn tengja mig og skringilegheit.

Áðan var ég í sturtu og var að fara að þvo á mér hárið, tók fram hársápubrúsann og byrjaði að sprauta sápunni í lófann. Þá sá ég skemmtileg mynstur myndast. Þannig ég hélt áfram að leika mér við að búa til myndir, þangað til ég rankaði við mér, næstum búin að tæma hálfan brúsann við að leika mér og skellti þessu hálfa tonni í hárið á mér og glotti í kampinn yfir eigin vitleysu.

Ég er enn ekki búin að taka neinar ákvarðanir varðandi líf mitt. Hvað á ég að vera þegar ég verð stór?? Það er allt of stutt í það að ég verði stór. Þetta er svo ógnvekjandi tilhugsun að ég held að ég hætti bara í skóla, falli á önninni og þá þarf ég ekki lengur að hafa áhyggjur af þessu.
Ef ég ætla samt einhvern tímann að fara í stærðfræði nennir þá einhver að tala mig til, það væri afráð, enda stærðfræði af hinu illa. Skoðun mín er engan veginn menguð af þeirri staðreynd að mér gekk illa á prófinu um daginn.
 
fimmtudagur, mars 04, 2004
 
Ég hef verið að velta framtíð minni fyrir mér undanfarið. Hvað ég á að taka mér fyrir hendur í haust. Hefur hugur minn hvarflað að flestum greinum háskólans nema viðskiptatengdra greina sem að ég held að hljóti að vera afspyrnu leiðinlegar.

Einnig hef ég töluvert velt fyrir mér samræmdu stúdentsprófi í íslensku. Frestur á að skrá sig í slíkt próf er til 15. þessa mánuðar. Þegar fyrst var farið að tala um þessi samræmdu próf hlupu allir til handa og fóta og höguðu námi sínu þannig að þeir útskrifuðust önn fyrr til þess að losna undan þessu oki. Þótti mér hugmyndafræðinni bak við þessi próf vera ábótavant. En kom ekki til hugar að fara að breyta skipulagi mínu til að losna undan einu prófi. Hef yfirleitt komið vel út úr prófum og vissi að ég gæti höndlað eitt próf til viðbótar þannig að ég ákvað að halda bara mínu striki og taka prófið. Nú er þátttaka í prófinu valfrjáls og er ég ekki búin að taka endanlega ákvörðun um hvað ég á að gera.
Var ég að skoða sýnispróf að slíku samræmdu stúdentsprófi áðan (er á namsmat.is) og þótti mér satt best að segja prófið ekki ósanngjarnt. Þar reyndi aðallega á lesskilning; túlkun á frekar einföldum ljóðum, venjulegur texti, fornbókmenntatexti, og smá úr hávamálum og slíkt. Spurningar voru alls ekki ósanngjarnar. Örlítil málnotkun, málfræðispurningar sem voru hlægilega léttar. Einnig voru tvö ritunarverkefni í lok prófsins. Reyndi prófið því aðallega á almenna íslensku kunnáttu. Að því leytinu er þetta próf ekki alslæmt. Ég held þrátt fyrir það að samræmd stúdentspróf séu ekki til bóta. Þó að prófunum sé hagað þannig að skólarnir eigi ekki að þurfa að breyta kennslunni til að nemendum gangi vel þá er samkeppni á milli skólanna. Mundi samkeppnin líklega fyrst fara hægt af stað, og yrðu einkunnir jú bornar saman en ekki samt þannig að nemendur fengi magasár af kvíða fyrir prófin. Síðan mundi samkeppnin aukast, sumum skólum þættu þeir knúnir til að standa sig vel og meiri pressa sett á nemendur. Færu kennarar vitandi eða óafvitandi að haga kennslunni þannig að nemendum þessa skóla gengi betur. Kennslumynstrið mundi breytast hægt og stefna að þeirri stefnu sem viðgengst í grunnskólum þar sem síðustu tvö ár fyrir samræmd próf er ekkert kennt nema að það geti komið á samræmdu prófunum.
Þrátt fyrir þetta þá er hluti af mér sem langar að taka þetta próf. Er með það óeðlilega viðhorf til prófa að í raun þyki mér það gaman. Eða, er ekki viss, en í prófum fyllist líf mitt reyndar yfirleitt gríðarlegri streitu og hef ég stuttan kveikjuþráð. En samt finnst mér þetta einhvern veginn hluti af tilverunni. Bara Íslendingurinn í mér sem að lifir fyrir streituna, þjóðin sem gerir jólin, gleðitímann að mesta streituvaldandi tíma ársins. Þetta kitlar hégómakenndina líka því að mig langar að vita hvernig ég stend mig hlutfallslega og í samanburði við aðra. Þó þetta fyrsta próf verði engan veginn almennt úrtak, heldur bara þeir örfáu vitlausu nördar sem að skrá sig í þetta próf, sem eru hverjir ég bara spyr? Líklega aðallega MR-ingar því að ekki kæmi mér það á óvart ef þeir yrðu ekki svo til skyldaðir til að mæta í prófið. Það ætti ekki að vera langt frá stefnunni sem þeir viðhafa í raungreinakeppnunum sem haldnar eru. Þar sem eðlisfræðideildin er skylduð til að mæta í eðlisfræðikeppnina en sú þátttaka er valfrjáls í MH. Þannig að ég hef ekki hugmynd hvernig ég komi út úr svona prófi, sem skiptir mig máli því að ég vil standa mig vel í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Þannig að ég er algjörlega áttavillt. Ég veit ekki hvað ég vil gera varðandi þetta próf. Ég veit ekki hvað ég vil læra í háskólanum. Ég veit ekki einu sinni hvað ég vil borða í kvöldmat. Voðalega veit ég fátt. Nenniði ekki bara ákveða þetta allt fyrir mig?
 
 
Ég á sokk sem að er eins og handklæði en ég á ekki handklæði sem er eins og sokkur.

Ég á gallabuxur, þær hafa allar gengið í þvotti afturábak.

Ég á bol með strætó á en ég á ekki strætó í bol.

Ég á vettling sem á tvíbura í Rússlandi.

Og ég, eggið, er í þessum skrifuðum orðum að rífast við hænuna, um hvort eggið hafi komið á undan hænunni eða öfugt. Ég, eggið, stend á því fastar en fótunum, að eggið hafi komið á undan hænunni. Að sjálfsögðu. Hvernig getur hæna sprottið upp úr engu? Bara búmmmm, og allt í einu stendur hæna fyrir framan mann. Nei, frekar finnst mér að það hafi verið samantekin ráð hjá einhverjum frumum að mynda svosum eins og eitt egg. Hæna heimilisins og annað egg kalla mig út af þessari rökhyggju besservisser og segja mig ekki geta vitað slíkt. En að sjálfsögðu veit ég þetta. Þar sem að ég er alvitur.
 
Mestmegnis bull, en ef vel er gáð, hver veit? Kannski að þið rekist á eitthvað af viti...

Úmpalúmpar

Vilborg Sigga Sara Salóme Pabbi Margrét Mamma Lísa Líney Kristjana Kristín Katla Íris Hugi Hjálmar Héðinn Heiða Guðný Eyrún Björgvin Bjarnheiður Berglind Árni Bjöss Arngrímur
Úmpalúmpaleikföng

Stærðfræðiheimur Stigull Rithringurinn Mæspeisið Margt og merkilegt Ljóð.is Hvarf Hotmeil Háskólinn Dindill

Powered by BloggerFornrit

09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 07/01/2011 - 08/01/2011 /