Dvel ég í draumahöll og dagana lofa
Ég var djúpt þenkjandi áðan og samdi byrjun á ljóði:
Það var einu sinni api
í ofsa góðu skapi...
Fjárinn! Þetta er stolið ekki satt? Ég sem var búin að semja lag við...
Ein algeng innsláttarvilla þykir mér ákaflega skemmtileg. Það er innsláttarvillan: skemmtielgur. Sér maður þá ekki bara fyrir sér syngjandi og dansandi elg - jafnvel með staf og flatan hatt. Eða það geri ég í það minnsta...
Ég er með eindæmum ómælsk. Komst ég að því áðan (þó mig hafi nú lengi grunað það), sat ég fyrir svörum ásamt tveimur öðrum (tilvonandi) nýnemum Háskóla Íslands. Ég gat varla stunið upp stöku orði, sumpart vegna þess að ég hafði ekki margt að segja, og sumpart bara vegna þess að þegar mér datt eitthvað í hug var það yfirleitt svona hálftíma of seint (ég er til að mynda ákaflega léleg í hnyttnum andsvörum). Reyndar var þetta ágætis fólk, sem með mér var í viðtalinu, fólk sem talar að jafnaði meira en ég um gáfulega hluti. Ég tók einmitt ákvörðun þarna að fylgjast mun betur með stjórnmálum héðan í frá. Því án þess virðist maður alltaf vera svolítið grunnur og hreinlega vitlaus, sem ég held að ég sé ekki. Kannski vitleysingur, en það er allt önnur Ella.
Er ég nokkuð alveg klikkó í hausnum?
Ég er farin að elda, baka og taka til (svona öðru hvoru). Merkilegt hverju maður tekur upp á þegar maður er einn heima...
Tópas virðist geta haft alvarlegri afleiðingar í för með sér en Läkerol. Rök: Þegar móðir mín beit í Tópas um daginn (fyrir soldið löngu) braut hún tönn. Það leiddi til þess að það þurfti kaupa einhverja postulínstönn, eða guð má vita hvað, sem kostaði tugi þúsunda. Ég hins vegar beit um daginn í Läkerol (ekki fyrir svo löngu) og braut tannréttingadót. Það leiddi til þess að tannlæknirinn sagaði það í burtu sem kostaði bara nokkra þúsundkalla. En hins vegar til að halda möguleikanum opnum á meira fjártapi og sársauka er mögulegt að tennurnar á mér skekkist (eða þessi eina) og þá gæti ég þurft að skella mér í smá meiri tannréttingar.
Það sem ég vil að þið lærið af þessari sögu er mjög skýrt: Borðið Ópal!
Eftir vikulanga dvöl í útlandinu verður maður mjög íhugull (ruglaðri en venjulega). Þá tekur maður eftir því að á veggnum í herberginu er lítil hurð. Hurð sem væri passleg fyrir dverga sem ganga á hlið í loftinu.
Ef maður síðan reynir að deila þessari hugljómum með herbergisfélögum sínum uppsker maður kodda í höfuðið.
Annars heilsuðum við upp á fræga fólkið í maddömmunni, kíktum í heimsókn í höllina, létum hræða okkur í dýflissu Lundúna og skoðuðum glitrandi krúnudjásnin. Héngum í garðinum og létum grilla okkur í sólinni eða sátum inni og skrifuðum póstkort í þrumuveðri. Borðuðum góðan mat og versluðum skó.
Keypti líka lúður á markaðnum og valsaði um borgina með hann á öðrum handleggnum.
Það er samt fínt að vera komin heim í rigninguna.