Dvel ég í draumahöll og dagana lofa
Í kvöld skautaði ég heim af þjóðarbókhlöðunni.
Annars datt mér í hug nýtt orðatiltæki. Í stað þess að segja að einhverjum vefjist tunga um tönn að koma með annað nýrra og nýtískulegra. Fólk er farið að tjá sig svo mikið með öðrum fjarskiptatækjum, svo sem símum. Væri því ekki tilvalið að segja þess í stað:
Að vefjast fingur um takka.
Einhvern veginn held ég að hann slái samt ekki í gegn...
Þetta er nýja takmarkið mitt í lífinu.
Annars fylgdist ég það vel með fréttum í veikindum mínum að þegar í gær var talað um við matarborðið að litli bróður minn hafði fengið frí í skólanum kom ég af fjöllum. Já, út af eldsvoðanum, sögðu foreldrar mínir.
Ha kviknaði í?
Áðan fór fram erfið aðgerð á heimili mínu.
Ég komst að því mér til mikillar skelfingar að prentarinn var bilaður. Hann prentaði öll gröf, sem ég þarf fyrir hina geigvænlegu eðlisfræðiskýrslu, á skakk og skjön.
Þegar faðir minn kom heim úr vinnunni sá hann eftir dulitla umhugsun að það kom bara eitt til greina - aðgerð.
Prentarinn var tekinn úr sambandi og vippað upp á eldhúsborðið. Þar var ég sérlegur aðstoðarmaður. Hann bograði yfir tækinu sveittur og hrópaði stundum upp yfir sig: stjörnuskrúfjárn, flísatöng, skæri, hníf. Á milli þess sem ég hljóp um og rétti honum þessi mikilvægu tæki stóð ég yfir öllu og lýsti á sjúklinginn með vasaljósi.
Þegar hann dró fram gerviskegg úr tækinu héldum við að við hefðum komist að (skegg)rót vandans.
Prentarinn var settur í samband og prófun fór fram. Við stóðum sitt hvoru megin við hann og nöguðum okkur í handabakið. En allt kom fyrir ekki. Skeggið var ekki eina vandamálið. Enn hófst önnur aðgerð. Nú var enn meira í húfi og fleiri skrúfjárn dregin upp. Í ljós kom að í innviði prentarans lá lítil baun. Sælgætisbaun. Seinni aðgerðin var tvísýn og var ég harla lélegur vasaljósshaldari sökum þess hve ég skalf af skelfingu um óvissu um afdrif prentarans. Um stund var tvísýnt um hvort sjúklingurinn mundi hafa þetta af. Það hefði mátt heyra saumnál detta í eldhúsinu í Samtúni 8. Baunin hafði hrokkið inn í dýpstu og dimmustu afkima prentarans. Útlitið var svart. Eftir tilraunir til að opna sjúklinginn, sem mistókust var gripið á það ráð að hrista hann til lífs. Að endingu var úrskurðað að baunin væri föst. Það eina sem við gátum gert var að vona að hún væri á stað þar sem hún mundi ekki vinna prentaranum mein.
Enn var hann settur í samband og andrúmsloftið var yfirþyrmandi er prófað var að prenta.
Gleðihrópin ómuðu síðan um alla götuna.
Aðeins hálftíma síðar var strax farið að tala illa um þennan prentara, því hann neitaði að prenta rétt þegar hann loksins tók upp á því að prenta yfir höfuð...
Bróðir minn hringdi áðan og sagðist vera hjá vini sínum því allir kennararnir voru veikir.
Það hlýtur að vera að ganga einhver flensa...
Ég er þakin hveiti.
Móðir mín skar sig við matargerð. Því hnoðaði ég deigið. Við þetta mikla magn af hveiti fylltist ég hveitigleði. Það þyrlaðist um í stóru skýi. Síðan fann ég fyrir vinnusöknuði og gleði- því í vinnunni minni gat ég farið í hveitislag eða makað mig í hveiti suma daga. Þannig að áður en ég vissi af var ég komin með stút á varir og farin að humma og syngja og maka hveiti á handleggi mína. Mjög skemmtilegt. Mæli með þessu - ef fólk á almennilega kústa.
Þegar ég sat á rúmstokki mínum í morgun varð mér hverft við þegar ég sá móta fyrir einhverju undarlegu. Fyrst hélt ég að þetta væri ólöguleg fluga. En þetta var köngluló.
Sem seig niður úr loftinu og staðnæmdist beint fyrir framan nef mér. Ég horfði dolfallin á hana hífa sig upp þar til hún stoppaði í miðju loftinu.
Síðan stóð ég upp á stól, pakkaði henni inn í klósettpappír og sturtaði niður. Blessuð sé minning hennar.
Ég hef athyglisspan á við tveggja ára barn í sykursjokki.
-ályktun dregin á þjóðarbókhlöðunni
Það er eins gott að ég reyki ekki - því á miðvikudögum mundi ég reykja svona 4 pakka yfir eðlisfræðidæmunum.
Ég hins tuggði svona 3 tyggjópakka á allt of stuttum tíma. Á tímabili, þegar mest lét, hafði ég rúman tyggjópakka í munninum í einu. Veit einhver hvort það sé mjög óhollt að stunda óhóflegt tyggjójórtur?
Í forprófinu* mínu skalf ég eins og hrísla í vindi. En skjálfandi fingur hafa ekki bætandi áhrif á hæfileikann til að spila hraðar æfingar og tilfinningaþrungin sónötuverk.
*próf sem viðkomandi fer í til að dæma um hvort hann sé hæfur til að taka stigspróf (í mínu tilfelli 6. stig).
í gær var dagur bókstafsins g